mán. 11. nóv. 2024 17:30
Þessir kjúklingaleggir með tandoori-sósu er tryllingslega góðir og koma bragðlaukunum á flug.
Tryllingslega góðir kjúklingaleggir með tandoori-sósu

Þessi kjúklingaleggir eru tryllingslega góðir og tandoori-sósan er sælgæti að njóta. Undirrituð prófaði leggina um helgina og þeir voru hreinn unaður að njóta og kláruðust upp til agna. Ég bakaði líka naan brauð sem rann ljúft ofan í mannskapinn.

Uppskriftin kemur úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal, ávallt kölluð Valla, sem heldur úti sínum eigin uppskriftavef hér.

Valla ákvað að snyrta leggina og útbúa einskonar sleikjó skurð á þeim, en þá er húðin af leggjunum skorin frá og kjötinu þrýst niður þannig að leggurinn minnir helst á sleikjó.

Þetta er auðvitað óþarfi en kjúklingurinn smakkast einhvern veginn betur þegar hann er hanteraður á þennan hátt. Ég gerði líkt og Valla, maríneraði leggina í smástund áður en ég grillaði þá í ofninum og penslaði þá síðan með extra tandoori-sósu, hún gefur svo gott bragð.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/11/04/undursamlega_gott_tandoori_lamb_med_saffran_hrisgrj/

Með kjúklingaleggjunum er upplagt að bera fram soðin grjón og jafnvel naan brauð ef vill.

Kjúklingaleggir með tandoori-sósu og grjónum

Aðferð:

  1. Snyrtið kjúklingaleggina og setjið Tandoori kryddmauk og gríska jógúrt saman í skál og hrærið saman.
  2. Ef þið viljið útbúa sleikjó leggi þá þarf að skera hringinn í kringum legginn fyrir miðju beinsins, um það bil 1-2 cm fyrir ofan kjötið.
  3. Hreinsið skinn og sinar af endanum, látið legginn standa upp á endann með kjötið niður og þrýstið kjötinu niður svo leggurinn geti nánast verið uppréttur án stuðnings.
  4. Setjið leggina í rennilásapoka og hellið maríneringunni yfir.
  5. Látið marínerast í 30 mínútur, en má alveg vera lengri tími ef þið viljið.
  6. Hitið ofninn í 200°C og stillið á grill. Eða hitið útigrillið í 200°C.
  7. Setjið leggina í álbakka og látið þá standa upp á endann.
  8. Vefjið beinin í smá álpappír ef þið hafið skorið sleikjó skurðinn, það kemur í veg fyrir að þau brenni.
  9. Setjið tandoori-sósuna í skál og farið með að grillinu/ofninum ásamt pensli.
  10. Grillið leggina á óbeinum hita í 20 mínútur.
  11. Penslið þá leggina vel með tandoori-sósu og grillið áfram í 20 mínútur eða þar til kjarnhiti þeirra nær 75°C.
  12. Það er ljómandi gott að ná að pensla leggina allavega 2-3x seinni hluta eldunartímans.
  13. Sjóðið hrísgrjón og hitið tandoori-sósu og berið fram með kjúklingaleggjunum ásamt naan brauðið ef vill. Skreytið með fersku kóríander ef vill.

 

til baka