Áður en „Swifties“-áhrifin náðu hámarki með ferðalögum aðdáenda Taylor Swift heimshorna á milli til þess eins að mæta á tónleika hennar, má segja að við lýði hafi verið svokölluð Andrea Bocelli-áhrif.
Ítalski tenórinn hefur fengið ófáa aðdáendur sína til að ferðast um langa leið til þess að fara á tónleika hans. Í nýrri kvikmynd um Bocelli deilir hann því hver uppáhaldsstaður hans er, sem ætti að kveikja áhuga áhorfenda á að ferðast til Toskana á Ítalíu.
Fæðingarstaðurinn
Í heimildarmyndinni segir Bocelli: „Toskana er fæðingarstaður minn, þar ólst ég upp og þar myndi ég vilja búa það sem eftir er ævinnar.“
Þrátt fyrir fjöldann allan af ferðalögum víðs vegar um heiminn vegna tónleikahalds er Toskana staðurinn þar sem Bocelli velur að verja sem mestum af tíma sínum.
„Ég held að í Toskana höfum við allt,“ segir Bocelli. „Við höfum list, fallega sveit, fjöllin, hafið og allt sem hægt er að óska sér.“
Í Toskana segist Bocelli nýta tímann til að hitta vini sína og fara á hestbak, en það séu hlutirnir sem hann sakni mest á ferðalögum.
Tilfinningaþrungin stund
Bocelli fagnaði þriggja áratuga ferli sínum í sumar með þriggja daga tónleikaviðburði í Teatro del Silenzio, sem er hringleikahús undir berum himni, nánast í bakgarði heimilis hans.
„Það var mjög tilfinningaþrungið að syngja þarna.“
Kvikmyndinni um Bocelli er leikstýrt af Sam Wrench, sá sem leikstýrði Taylor Swift - The Era Tour. Kvikmyndin var frumsýnd í Bandaríkjunum 8. nóvember og gefur góða mynd af lífi söngvarans, ástríðu hans á Toskana og sýnir svipmyndir frá dæmigerðu, afslöppuðu ítölsku umhverfi við kvöldverðarborðið með vinum og vandamönnum.