mið. 13. nóv. 2024 19:00
Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands og sagnfræðingur, rifjar upp liðinn tíma og horfir björtum augum til framtíðar.
„Ég ákvað að vera ég sjálfur áfram“

Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, er síðasti en alls ekki sísti gestur Hringferðar Morgunblaðsins, sem lagt var í í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins fyrir ári. Morgunblaðið fagnar 111 ára afmæli í dag. Morgunblaðsmenn settust niður með Guðna á Hótel Holti við Bergstaðastræti í Reykjavík.

„Ég má kannski orða það svo að maður sé aðlögun,“ segir Guðni en hann lét af embætti forseta Íslands í sumar eftir að hafa gegnt embætti í átta ár. Þessa dagana er hann að koma sér fyrir á nýju heimili fjölskyldunnar í Garðabæ, en þau Eliza Reid eiginkona hans reistu sér hús við rætur Álftanesvegar. Um áramót tekur hann aftur til starfa við fyrri iðju í Háskóla Íslands.

„Ég lít glaður um öxl. Þess vegna líður mér ágætlega með þetta,“ segir hann.

Þið kunnuð svo vel við ykkur að þið bara ákváðuð að vera áfram í Garðabæ?

„Já, við fluttum ekki langt. Við búum núna við upphaf Álftanesvegar við Engidal, alveg við bæjarmörk Hafnarfjarðar. Ég vil nú eiginlega kalla mig Álftnesing áfram.

Okkur var afar vel tekið úti á Álftanesi og börnin kunnu mjög vel við sig í skóla. Ég gældi við að láta það verða mitt síðasta embættisverk að færa hin fornu mörk Álftaness og Garðabæjar svo ég væri áfram Álftanesmegin,“ segir Guðni og hlær og segist kalla sig Álftnesing.

En hvernig er þetta að vera þjóðhöfðingi og fjölskyldufaðir?

„Ég myndi hiklaust halda því fram að það sé óvíða eins gott að gegna virðulegu embætti af þessu tagi og á Íslandi. Við fundum aldrei fyrir óþægilegri hnýsni eða forvitni.

Börnin guldu þess aldrei að vera í þessari stöðu og fundið þannig lagað lítt fyrir því. Það var frekar bara hið jákvæða. Þau gátu notið þess að fá að hitta fólk sem þeim finnst gaman að berja augum, eins og íþróttafólk og einhverja aðra og þess háttar.

Þannig að mér finnst vænt um samfélag eins og það íslenska þar sem fólk getur sinnt sínum ábyrgðarmiklum störfum án þess að fjölskyldan skaðist. Við eigum mýmörg dæmi um það úti í heimi þar sem börn þjóðhöfðingja þjáist vegna þess að athyglin og áreitið eru of mikil.

Ég vona að við höldum í það hér á Íslandi að fólk geti gegnt áberandi ábyrgðarstöðum í samfélaginu án þess að það þurfi að huga að því hvaða áhrif það muni hafa á fjölskylduna. Auðvitað leiddi ég hugann að því í aðdraganda forsetakjörs hvað ég væri að kalla yfir mig og fjölskylduna sem ég gæti séð eftir,“ segir hann.

„En sú varð ekki raunin.“

Var það æskudraumur þinn að verða forseti?

„Það kemur að því er ég skrái endurminningar mínar byggðar á dagbókum mínum,“ segir Guðni og hlær og segir nær hendingu að hann hafi ratað í forsetastól.

„Það var röð tilviljana sem olli því að ég þótti álitlegur kostur og svo fór sem fór.

– Af því að við erum hér að ræða Morgunblaðið og sögu þess minnist ég þess að Styrmir heitinn Gunnarsson kom að máli við mig til þess að segja mér hvenær sér varð ljóst að ég næði kjöri.

„Það var í salnum þegar þú kynntir framboðið,“ sagði Styrmir, „og börnin voru allt í kring á myndinni.“ Ég hélt á þeirri yngstu, næstyngsta barnið, strákurinn, hann var við fótskör mína og hin börnin allt um kring. Fólk vildi bara fá svona forseta og ég sel það ekki dýrara en ég keypti það,“ segir Guðni.

„Við forsetakjör vilja Íslendingar gjarnan nýjan forseta sem sker sig frá þeim fyrri. Það sáum við til dæmis þegar Kristján Eldjárn náði kjöri en Gunnar Thoroddsen beið lægri hlut 1968. Þá er það öðrum þræði vegna þess að fólk vildi eitthvað nýtt aftur. Ekki mann sem átti feril í stjórnmálum og hafði verið borgarstjóri,“ segir Guðni og nefnir einnig Vigdísi Finnbogadóttur og að mjótt hafi verið á munum milli hennar og Guðlaugs Þorvaldssonar. Hann rifjar upp að þegar Ólafur Ragnar var kjörinn 1996 hafi fólk viljað eitthvað nýtt og nefnir að Guðrún Agnarsdóttir, sem var í forsetaframboði það ár, hafi hugsanlega verið of lík Vigdísi.

„Þannig að það er þessi tilhneiging í hópi kjósenda að velja eitthvað nýtt og kannski naut ég þess 2016.“

Þú talar vel um tíð ykkar á Bessastöðum og að börnin hafi ekki beðið skaða af. Mér sýnist og heyrist að þér þyki vænt um þessa tíma.

„Þetta voru góðir tímar,“ segir hann en bætir við að þótt hann liggi ekki á sálfræðingsbekk með Morgunblaðsmönnum, þá minnist hann auðvitað einnig tíma í embætti þar sem hann var ekki með hýrri há.

„En þegar ég lít um öxl þá þakka ég auðvitað fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Það fylgir því mikill heiður auðvitað að vera fulltrúi þjóðar sinnar og að geta horft til baka og sagt með sanni við sjálfan sig og aðra: „En þetta gekk allt saman meira og minna ágætlega og gott að tilheyra samfélagi úti á Álftanesi.“ Ég naut þess mjög.“

Forsetinn með buffið

Það vakti mikla athygli þegar Guðni birtist með buff á höfðinu í Morgunblaðinu. Guðni segir að þetta hafi gerst alveg óvart. Hann var í tímahraki og það var kalt úti.

„Snemma minnar forsetatíðar fékk ég það góða boð að vera viðstaddur afhjúpun söguskiltis úti á Bessastaðanesi. Það kom ekki til álita að láta aka þarna út eftir en það getur verið hryssingslegt úti á Álftanesi svo maður þarf að klæða sig vel. Og sem ég er að fara út úr húsi, finn ég ekki mitt venjulega höfuðfat og róta í hirslum krakkanna.

Þar finn ég þetta forláta buff og þakka mínum sæla að það var ekki eitt þessara buffa sem merkt voru banka – föllnum eða ekki – það hefði verið verra. Ég læt buffið á hausinn og arka frá Bessastöðum út á Bessastaðanes að Skansinum.

Er þar þá ekki fulltrúi Morgunblaðsins, Sigurður Bogi Sævarsson, sem spyr hvort hann megi ekki taka myndir,“ segir Guðni og minnist þess að með í för hafi verið Gunnar Einarsson, þáverandi bæjarstjóri í Garðabæ, með miklu fínni rússneska loðhúfu, sem Sigurður Bogi hafi þó varla tekið eftir.

Eftir þetta varð hann forsetinn með buffið. Sem Guðna finnst hálfu merkilegra fyrir það að hann er alls enginn buff-aðdáandi þótt þjóðin haldi það.

„Ég nefni þetta sem gott dæmi um það hvernig maður er alltaf í sviðsljósinu og hvernig einhvers konar ímynd mótast. Maður þarf bara að sætta sig við að hvar sem maður fer og hvað sem gerir maður þá er alltaf tekið eftir því.“

Þegar Guðni er spurður að því hvort það hafi ekki verið mikið álag að vera ekki eins og umrenningur til fara játar hann því. Hann hafi hins vegar ekki vilja breyta um fatastíl og verða skyndilega glerfínn því það sé ekki hans stíll.

„Ég ákvað að vera ég sjálfur áfram. Það yrði mér ekki til farsældar, og því síður þjóðinni, ef ég hefði farið að setja mig í stellingar sem mér liði ekki vel í.“

til baka