Sigríður Björnsdóttir, innkirtla- og efnaskiptalæknir, starfaði áður hjá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi en er hjá Heilsuklasanum í dag. Hún hittir fjölda skjólstæðinga sem leita til hennar vegna beinþynningar og bendir á að hægt sé að fyrirbyggja hana að einhverju leyti.
Sigríður er með áralanga reynslu af meðhöndlun beinþynningar og hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um mikilvægi beinheilsu og forvarna gegn beinþynningu.
Sigríður starfaði á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í 17 ár og er nú starfandi læknir í Heilsuklasanum á Höfða. Hún er enn að stunda rannsóknir á Karolinska og leiðbeinir þar doktorsnemum.
„Það er margt sem við getum gert til að draga úr beinþynningu og áhættunni að brotna og þess vegna er mikilvægt að fræða fólk um hvað það getur gert sjálft til að fyrirbyggja.“
Nýlega hófst fjögurra mánaða námskeið í Heilsuklasanum Sterkari bein sem leggur áherslu á alhliða þjálfun með sérstakri áherslu á styrktar- og jafnvægisæfingar. Auk hreyfingar býður námskeiðið upp á fræðslu um beinheilsu, næringu og mikilvægi reglulegrar hreyfingar.
Hættuleg brot
Beinþynning einkennist af minni beinþéttni og veikari uppbyggingu beina sem eykur líkur á brotum við lítið álag, svokölluðum lágorkubrotum, að sögn Sigríðar. Hún útskýrir að lágorkubrot verða við minniháttar álag eins og að missa jafnvægi á jafnsléttu og lenda með þunga á úlnlið, öxl eða mjöðm. Annað dæmi er að bera eitthvað þungt og fá í kjölfarið mikinn verk í bakið sem reynist síðan vera samfallsbrot í hryggnum.
„Þeir sem eitt sinn hafa fengið lágorkubrot eiga á hættu að fá fleiri.“
Hún bendir á að brot af þessu tagi séu algeng. „Rannsókn úr gögnum Hjartaverndar fram til ársins 2008 sýndi að um 2.000 brot á ári hérlendis mætti rekja til beinþynningar. En við höfum verið að fylgja Norðurlöndunum í þessum efnum svo ef við miðum við nýjustu tölur t.d. frá Svíþjóð þá eru slík brot líklega mun algengari á Íslandi, eða nær 3.000 á ári.“
Sigríður bætir við að einkenni beinþynningar séu engin þar til brot á sér stað. Það sé því oft ekki fyrr en fólk brotni að beinþynningin komi í ljós. Fyrst og fremst gerist þetta hjá eldra fólki en geti einnig gerst hjá yngra fólki.
„Önnur hver kona eftir fimmtugt á eftir að fá beinþynningarbrot og 20% karla,“ og nefnir Sigríður dæmi um kryppu eða lækkun á líkamshæð sem oft er vísbending um samfallsbrot í hrygg.
Mjaðmabrotin séu þó alvarlegust þar sem þau krefjast innlagnar og aðgerðar, og langrar endurhæfingar sem oft hefur áhrif á lífsgæði og færni fólks. „Hvert brot er mjög dýrt og því fylgir mikill kostnaður.“
Hún bendir á að íbúar á Norðurlöndum séu með hæstu tíðni í mjaðmabrotum á heimsvísu, þar sem bæði erfðafræðilegir og umhverfisþættir hafa áhrif.
Mikilvægt að fyrirbyggja
Börn og unglingar byggja upp beinmassa jafnt og þétt fram til 22 ára aldurs, þegar hámarksbeinþéttni er náð. Beinþéttnin á þessum aldri ræðst að mestu leyti af erfðum, þ.m.t. hvort ættarsaga um beinþynningu sé til staðar, en einnig af umhverfisþáttum.
Umhverfisþættir eins og undirliggjandi sjúkdómar, langtímameðferð með sykursterum, vannæring, lág líkamsþyngd og ofþjálfun með tíðastoppi geta valdið lægri hámarksbeinmassa.
„Þetta undirstrikar mikilvægi þess að ungt fólk hugsi vel um næringu sína og noti beinin,“ segir Sigríður og á við æfingar, hreyfingu og vöðvastyrk.
Hún lýsir beinunum sem lifandi vef. „Því meira sem þú notar beinin því meiri verður endurbyggingin og þau verða sterkari.“
Konur viðhalda að jafnaði beinþéttni sinni fram til breytingaskeiðs, en á þeim tíma verður hraðara tap á beinþéttni vegna lækkunar estrógens í líkamanum. Karlmenn hafa hins vegar þéttari bein en konur þar sem bein þeirra eru grófari og stærri, að sögn Sigríðar.
Rannsóknin frá Karolinska
Sigríður sótti amerísku beinþynningarráðstefnuna í Toronto í lok september. Þar voru kynntar niðurstöður slembirannsóknar á vegum Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.
Í rannsókninni voru borin saman áhrif tveggja tegunda æfinga á beinheilsu. Annars vegar ísómetrískar æfingar þar sem hver þátttakandi gerði fimm styrktar- og jafnvægisæfingar með mikilli þyngd í 20 mínútur einu sinni í viku, einn með þjálfara. Hins vegar dýnamískar æfingar, sem samanstóðu af tíu fjölbreyttum styrktar-, jafnvægis- og þolæfingum með og án lóða, í hópi með þjálfara, í 60 mínútur, tvisvar í viku.
Alls tóku 194 konur á aldrinum 65-79 ára, með beingisnun (vægara stig beintaps) eða beinþynningu, þátt í rannsókninni og var þeim slembiraðað niður á æfingarnar yfir níu mánaða tímabil.
Helstu niðurstöður leiddu í ljós að styrktar- og jafnvægisæfingar eru mikilvægar fyrir beinheilsu, og engin aðferð reyndist betri en önnur. Að auki kom í ljós að þolæfingar fyrir hjarta og æðakerfið eru mikilvæg viðbót og að hópæfingar stuðla að félagslegum stuðningi og vellíðan þátttakenda.
Þjálfaðu jafnvægið
Sigríður bendir á að einstaklingar geti gert ýmislegt til að efla varnir gegn beinþynningu og viðhalda beinþéttni.
„Styrktar- og jafnvægisæfingar eru mjög mikilvægar allt okkar líf til að fyrirbyggja byltur. Jafnvægið er eitthvað sem við getum þjálfað upp með einföldum æfingum sem gera má heima.“
Að auki leggur Sigríður áherslu á að gera allt til að fyrirbyggja byltur, eins og að nota góða skó og mannbrodda þegar hálkutímabilið fer að byrja.
Heima við þarf að hafa góða lýsingu og hvorki lausar mottur né snúrur sem auki hættuna á að detta.
„Hins vegar, ef fólk dettur, þá má það samt ekki verða of hrætt við daglegar athafnir innanhúss og utan. Annars er hætta á að fólki einangrist,“ segir hún og áréttar mikilvægi þess að halda áfram þátttöku í félagsstarfi.
Mataræðið gegnir ekki síður stóru hlutverki í að viðhalda beinþéttni og nefnir Sigríður sérstaklega kalkið. Mikilvægast sé að fá kalkið úr fæðunni en það finnist ekki einungis í mjólkurvörum heldur einnig í öðrum fæðuflokkum s.s. grænkáli, brokkólí, baunum og hnetum.
„Próteininntaka og styrktaræfingar eru mikilvægar fyrir vöðvauppbyggingu og prótein ætti að vega um 15-20% af orkuinntökunni.“
Að auki bendir hún á mikilvægi D-vítamíns, einkum á norðlægum slóðum þar sem erfitt er fá vítamínið frá sólarljósinu einu saman. Inntaka D-vítamíns er því mikilvæg viðbót við hollt og næringarríkt mataræði.