fös. 18. apr. 2025 20:00
Það er sniðugt að gera æfingar.
Þetta taka heilsugúrúar með í sumarfríið

Mörgum finnst gott að viðhalda heilsurútínunni sinni þótt það sé á ferðalagi yfir sumartímann. Vefritið Stylist Magazine tók nokkra heilsugúrúa tali og fékk að forvitnast hvað væri ómissandi í ferðatöskuna.

Teygjur til að teygja

„Ég pakka alltaf teygjum með í ferðalagið. Þannig getur maður byggt upp vöðva með viðnámsæfingum og teygt vel á. Það er mjög mikilvægt að halda líkamanum sínum á hreyfingu. Það minnkar líkur á meiðslum og kemur í veg fyrir bakverki sem gætu fylgt því að liggja á sólbekk allan liðlangan daginn eða að sofa með kodda sem maður er ekki vanur,“ segir Anisha Joshi osteoópati.

Ökklalóð fyrir gólfæfingar

„Mér finnst mikilvægt að hafa lítil handlóð eða lóð fyrir ökkla og úlnliði. Ég legg mikla áherslu á að halda heilsurútínu minni þótt ég sé á ferðalagi. Það er hægt að gera ýmsar pílates eða barre æfingar inni á hótelherbergjum og ökklalóðin gera það að verkum að maður fær enn meira út úr æfingunum,“ segir Laura Dodd jógakennari. 

Uppblásinn pílatesbolti

„Ég tek með mér lítinn pílates bolta sem hægt er að blása upp á hótelherberginu. Ég nota hann til þess að ná streitu úr líkamanum eftir flug. Ég ligg þá á gólfinu og set boltann undir höfuðið en ekki undir hálsinn. Svo vagga ég hælunum þannig að ég finn að hausinn vaggast einnig lítillega, þannig losa ég um hálsvöðvana. Það er hægt að nota sömu aðferð með mjaðmagrindina,“ segir Nahid de Belgeonne sómatískur hreyfiþjálfari.

 

 

til baka