lau. 4. maí 2024 08:30
Logi Hrafn Róbertsson skoraði sigurmark FH gegn ÍA á Akranesi í fjórðu umferðinni.
Fyrsti heimaleikur FH í dag

FH-ingar spila í dag sinn fyrsta heimaleik í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir taka á móti nýliðum Vestra á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði klukkan 14.

FH-ingar víxluðu við HK á heimaleikjum í þriðju umferð, eftir að hafa byrjað mótið á tveimur útileikjum, þar sem grasið í Kaplakrika var ekki tilbúið, og mættu Breiðabliki, KA og ÍA á útivöllum.

Nú er hinsvegar orðið leikfært í Krikanum og FH-ingar freista þess að styrkja enn frekar stöðu sína en þeir fengu níu stig af tólf mögulegum úr þessum fjórum útileikjum sínum í byrjun móts.

Vestramenn spila sinn fimmta leik að heiman en þeir þurftu vegna lagningar gervigrass á keppnisvöllinn á Ísafirði að spila sinn eina heimaleik til þessa í Reykjavík. Þeir hafa samt krækt í sex stig úr síðustu tveimur leikjum.

Þetta er fyrsti leikurinn í fimmtu umferðinni en fjórir leikir fara fram á morgun og loks mætast Breiðablik og Valur á mánudagskvöldið.

til baka