fös. 3. maí 2024 21:30
Kenneth Hogg fyrirliði Njarðvíkur með boltann í kvöld.
ÍR vann óvænt í Keflavík

Nýliðar ÍR gerðu sér lítið fyrir og lögðu Keflavík að velli, 2:1, í 1. umferð 1. deildar karla í Keflavík í kvöld.

Bragi Karl Bjarkason kom gestunum úr Breiðholti í forystu með marki úr vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik en Valur Þór Hákonarson jafnaði metin fyrir heimamenn örskömmu síðar.

Undir lok fyrri hálfleiks tryggði Stefán Þór Pálsson ÍR kærkominn útisigur.

Jafnt í Mosfellsbæ

Afturelding fékk Gróttu í heimsókn í Mosfellsbæ og skildu liðin jöfn, 1:1.

Aron Bjarki Jósepsson, miðvörður Gróttu, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark fyrir Aftureldingu snemma leiks.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Damian Timan metin fyrir Gróttu og þar við sat.

Dramatískt jöfnunarmark í Laugardal

Þróttur úr Reykjavík og Þór frá Akureyri áttust við í Laugardal og gerðu sömuleiðis jafntefli, 1:1.

Rafael Victor kom gestunum frá Akureyri yfir eftir tæplega hálftíma leik með marki úr vítaspyrnu.

Allt virtist stefna í sterkan útisigur Þórsara þegar Norðmaðurinn Jörgen Pettersen jafnaði metin á þriðju mínútu uppbótartíma og tryggði Þrótturum dramatískt jafntefli.

Óvæntur sigur Njarðvíkur

Njarðvík gerði frábæra ferð í Breiðholtið og lagði Leikni úr Reykjavík, 2:1.

Björn Aron Björnsson og Dominik Radic komu Njarðvík í 2:0 í fyrri hálfleik.

Róbert Quental Árnason minnkaði muninn fyrir Leikni skömmu fyrir leikslok en nær komust heimamenn ekki.

til baka