þri. 23. apr. 2024 13:00
Una Torfa hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri.
Tónlistarmiðstöð tekur til starfa

„Frá áramótum höfum við lagt allt kapp á að setja saman öflugt teymi, koma okkur fyrir og búa til hlýlega og metnaðarfulla umgjörð fyrir starfsemi miðstöðvarinnar,“ segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar sem verður formlega opnuð í dag. Opið hús verður frá klukkan 16 í nýjum höfuðstöðvum við Austurstræti 5 þar sem Landsbankinn var áður til húsa.

 

 

Starfsemi og starfsfólk Tónverkamiðstöðvar og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Útón, færðist inn í nýja Tónlistarmiðstöð um síðustu áramót. Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk ríkisins. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni en formaður hennar er Einar Bárðarson.

Í tilkynningu kemur fram að hlutverk Tónlistarmiðstöðvar sé m.a. að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi, sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð er og falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs.

Mörg og spennandi verkefni

„Með því að færa íslenskri tónlist varanlegt heimili er verið að taka mikilvæga stefnu til framtíðar og gera þá umgjörð sem við höfum skapað listgreininni mun aðgengilegri. Nú verður hægt að leita á einn og sama staðinn eftir stuðningi, upplýsingum og innblæstri sem áður dreifðist yfir fjölda stofnanna. Þannig sameinast mikilvæg þekking og framtíðaráform undir einu þaki. Verkefni Tónlistarmiðstöðvar eru því mörg og spennandi. Það er ekki síst íslensku tónlistarfólki að þakka sem hefur með krafti sínum kveikt neista sem hefur skilað okkur einskærum áhuga á að leggja stund á tónlist, skapa tónlist og njóta tónlistar,“ er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra í tilkynningu.

 

til baka