þri. 23. apr. 2024 12:21
Sjávarútvegssýningin í Barselóna hófst í gær. Sýningin eru sú stærsta sinnar tegundar á heimsvísu.
Sýningin í Barselóna sú stærsta frá upphafi

Þrítugasta alþjóðlega sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global hófst í Barselóna á Spáni í gær og er hún sú stærsta sem hefur verið haldin til þessa. Að þessu sinni taka þátt 2.244 fyrirtæki frá 87 ólíkum ríkjum.

Þetta kemur fram í tilkyningu á vef skipuleggjenda.

Um langt skeið var sýningin haldin í Brussel í Belgíu en var hún færð til Barselóna þar sem hún er haldin í mun stærri sýningarhöll, Fira de Barcelona Gran Via, og þekur sýningin heila 51.248 fermetra.

Að venju er fjöldi íslenskra útgerða-, vinnslu- og tæknifyrirtækja með bása á sýningunni en hún er fyrst og fremst tækifæri fyrir fyrirtækin til að hitta viðskiptavini sína og efla tengslanet sitt.

Sýningunni lýkur á fimmtudag.

til baka