þri. 23. apr. 2024 12:02
Starlink útvegar háhraðanet í gegnum gervihnetti SpaceX.
Bylting á Ljósafellinu með Starlink

Hægt er að fullyrða að bylting hafi orðið í samskiptatækifærum skipverjanna á Ljósafelli SU, en þar er nú að finna tengingu við Starlink sem skilar háhraða-interneti með aðstoð gervihnatta sem skotið er á loft af Space X sem er að stórum hluta í eigu auðkyfingsins Elon Musk.

„Löngum höfum við Ljósfellingar verið glíma við óstöðugt internet og símasamband, enda hefur skipið hingað til eingöngu verið búið 4G móttakara. Þegar lengra er haldið til veiða hefur þetta oft verið okkur mikill akkilesarhæll, og vísast til þeirra er stunda fjarnám,“ segir í færslu skipverjanna á Facebook-síðu þeirra.

„Nú hefur orðið á þessu bragarbót, og fjárfest hefur verið í Starlink búnaði á Ljósafell, og má segja að um mikla byltingu fyrir okkur i áhöfn skipsins sé að ræða. […] Þessi þjónusta og búnaður er nýr af nálini, og í stöðugri þróun en er samt sem áður komin það langt a leið að við náum internetsambandi hvar sem við erum staddir,“ segir í færslunni.

 

Starlink heitir því að geta útvegað háhraða-internettengingu nánast hvar sem er í heiminum og hefur meðal annars verið mikilvægur hlekkur í baráttu Úkraínuhers gegn innrásarliði Rússa.

Þjónustan hefur verið í boði fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi um nokkurt skeið en ekki er vitað hve útbreidd notkunin er á íslenskum fiskiskipum. Eitt er þó víst og það er að Starlink gæti skilað áhöfnum mun meiri tækifæri til að eiga í samskiptum við fjölskyldu og vini, finna afþreyingarefni, sinna námi og öllu öðru sem öflugt samskiptakerfi býður upp á.

 

til baka