mið. 17. apr. 2024 14:17
Ólafur Páll Gunnarsson er einn stofnenda HEIMA.
Halda tónleika á heimilum í Hafnarfirði

Á síðasta vetrardag þessa árs, 24. apríl, munu Hafnfirðingar opna heimili sín fyrir tónlistarfólki og gestum þegar tónlistarhátíðin HEIMA verður haldin. Fyrsta hátíðin átti sér stað árið 2014 og hefur verið haldin á hverju ári síðan, fyrir utan tímann er heimsfaraldurinn stóð yfir. Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður og einn forvígismanna hátíðarinnar, var til viðtals í Ísland vaknar þar sem hann talaði um hátíðina og upphaf hennar.

„Þetta er tónlistarhátíð sem fer aðallega fram í heimahúsum og tveir listamenn spila í sama húsinu. Þetta eru fjórtán listamenn og fjórtán hús, tvennir tónleikar í hverju húsi og listamenn og gestir hlaupa á milli,“ útskýrir Ólafur. „Sum húsin eru stór en önnur eru pínulítil. Eins og fyrir nokkrum árum fengum við KK. Við bókuðum hann vísvitandi í hús þar sem aðeins sjö komust fyrir, svo það er mikil nánd og ofboðslega skemmtilegt. Enda flykkjast Hafnfirðingar í þetta. Aðrir líka en þetta eru aðallega Hafnfirðingar.“ Hann segir frá því að fyrsta árið hafi verið spilað í hans eigin húsi. „Eivor, Emmsjé Gauti og Jónas Sig. spiluðu heima hjá mér.“

 

Hugmyndin frá Færeyjum

„Hugmyndin er svo frábær en hún kemur frá Færeyjum. Það var á Airwaves árið 2013 sem við hittum Færeying sem sagði okkur frá þessari hugmynd. Við urðum svo hrifnir að við spurðum hann hvort við mættum ekki gera þetta hér, hann sagði ekkert mál. Hátíðin í Færeyjum heitir Hoyma,“ segir Ólafur.

„Þegar við ákváðum að fara í þetta spáðum við mikið í það hvar við ættum að draga línuna og stoppa miðasöluna. Við ákváðum að við myndum stoppa hana í fimm hundruð miðum. Svo settum við miðasöluna af stað og það seldust tveir miðar, enginn miði daginn eftir og svo einn miði daginn eftir það. En það var þannig þá að fólk setti fyrir sig að þetta væri ný og öðruvísi hugmynd. Það er enn þá þannig í dag að ég heyri frá fólki að það vilji ekki fara heim til einhvers fólks,“ segir hann og hlær. „En það gengur auðvitað engan veginn, þetta er ofboðslega skemmtilegt.“

Hann segir suma bjóða heimili sín fyrir tónleika en einnig hafa þau bankað upp á hjá fólki. „Það má ekki vera of langt á milli því fólk er að hlaupa á milli húsa. Þetta er í kringum gamla miðbæinn og ég held að lengsta vegalengd í labbi á milli sé svona sjö mínútur. En okkur vantar enn eitt hús.“

Tónlistarfólk jákvætt

Hann segir mikla stemningu myndast á hátíðinni og hún sé öðruvísi en aðrar. Tónlistarmenn taki einnig vel í þetta. „Það hefur auðvitað færst í vöxt að tónlistarmenn séu að mæta í heimahús og spila, í afmælum til dæmis og á öðrum viðburðum. Þannig að fólk er svo sem vant því í þessu samhengi en þetta er samt öðruvísi. Tónlistarfólk kemur á sínum forsendum, spilar það sem það vill spila og eins og það vill spila það. Við höfum blessunarlega verið mjög heppin og næstum því allir sem við höfum talað við hafa verið til í þetta.“

Þar sem hugmyndin er upphaflega færeysk segir Ólafur þau alltaf reyna að hafa eitt atriði frá Færeyjum. Nú er það Døgg Nónsgjógv sem kemur til landsins. „Þessi stelpa vakti athygli þegar hún var kornung og var svona smá barnastjarna. En hún fékk nóg og lét ekkert í sér heyra í um tíu ár. Nú er hún komin aftur og er að fá mikla athygli,“ segir Ólafur.

„Gott stöff“

„Við trúum því að fólk sem hefur gaman af músík hafi gaman af alls konar músík. Aðalatriðið þarna er tónlist án þess að setja hana í einhverjar hillur, góð tónlist og gott stöff, það er það sem við hugsum. Þótt þú ætlir að sjá einhvern og það er fullt, það er stundum þannig, þá ferðu bara í næsta hús og hlustar á einhvern sem þú þekkir ekki. Það er mjög gaman.“

Hátíðin verður haldin síðasta vetrardag, 24. apríl næstkomandi. Þeir sem koma fram eru Rebekka Blöndal, Klara Elias, Døgg Nónsgjógv, Margrét Eir, Brek, Elín Hall, Tómas R. Einarsson, Rock Paper Sisters, GDRN og Magnús Jóhann, Hipsumhaps, Emmsjé Gauti, KUL, Soffía Björg og Pétur Ben og Ceasetone. Fríkirkjan í Hafnarfirði verður eitt af HEIMA-húsum eins og undanfarin ár og nýtir hátíðin einnig sviðið í Bæjarbíói. Miða á hátíðina má nálgast á Tix.is.

Hlustaðu á viðtalið við Ólaf í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

 

til baka