mán. 15. apr. 2024 15:16
Ásdís Rán segir undirskriftasöfnunina vera erfiða en hún sé þó bjartsýn.
Erfitt að ná lágmarksfjölda meðmælenda

Ásdís Rán Gunnarsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrirsæta, segir það vera erfitt að ná tilskyldum fjölda meðmæla sem þarf til að bjóða sig fram til embættisins. Hún sé þó bjartsýn og lofar miklu meiri glamúr á Bessastaði.

„Ég ætla ekki að ljúga eins og margir hafa gert. Ég ætla að segja að þetta sé erfitt en ég hef ekki eytt neinum peningum í þetta. Svo þetta er aðeins flóknara fyrir mig en aðra. Ég hef verið að vinna með samfélagsmiðla og að reyna að pota í fólk hér og þar,“ sagði Ásdís í viðtali við síðdegisþáttinn Skemmtilegu leiðina heim.

„En ég er komin vel á veg og ég held að mér takist þetta á næstu tveimur vikum. Ég er jákvæð. Börnin eru að hjálpa mér, svo er ég með vini og vandamenn á bakvið mig.“ Ásdís hefur ekki komið sér upp teymi eins og margir aðrir frambjóðendur og segist ekki vera með kosningastjóra eða markaðsfræðinga til að hjálpa sér.

„Bull“ ef forsetinn er pólitískur

„Að mínu mati þarf forsetinn að vera glæsilegur fulltrúi á alþjóðavísu. Hann þarf að vera gæddur einstökum persónutöfrum, vera með brennandi áhuga á íslenskri menningu og hefðum, hann þarf að geta markaðssett Ísland og okkar auðlindir út um allan heim. Mér finnst hann alls ekki að eiga vera pólitískur, mér finnst það algjört bull.“

Hún segist þó vera þjálfuð á þeim sviðum sem þarf. „Hlutverk forsetans er „show-off“ í sviðsljósinu svo þetta er svið sem ég er rosalega þjálfuð á. Hvað er forsetinn að gera? Koma fram við ýmis tækifæri, hann þarf að vera fulltrúi Íslands á uppikomum um allan heim, þarf að koma vel fram, geta haldið ræður og staðið upp þegar á móti blæs.

Þetta eru hlutir sem ég get gert eins og allir hinir. Ég þarf ekki að vera menntuð í pólitík, lögfræðingur eða læknir til þess að geta gert þetta. En ég held ég gæti gert þetta betur en þau,“ segir Ásdís. 

Hún ætlar sér ekki að leggja fyrirsætustörfin á hilluna ef hún verður kosin til forseta. „Hlutverk forsetans er að vera í stanslausum myndatökum og ég geng beint í það með stæl. Ég verð kannski ekki í persónulegu myndatökunum en ég lofa því að ég verði alltaf flott og vel til fara. Ég mun vera forsetisembættinu til sóma.“

Hlustaðu á viðtalið við Ásdísi Rán í spilaranum fyrir neðan.

 

til baka