lau. 20. apr. 2024 10:00
Lilja Rúriksdóttir og Aaron Moten kynntust í Bandaríkjunum en hafa komið sér vel fyrir á Íslandi.
Hamingjusöm á Íslandi með annan fótinn í Hollywood

Hjónin Aaron Moten leikari og Lilja Rúriksdóttir, dansari og danshöfundur, kynntust í Juilliard, einum virtasta listaháskóla í heimi. Í dag lifa þau venjulegu lífi á Íslandi en á sama tíma er Aaron með annan fótinn í Hollywood þar sem stórþættirnir Fallout voru nýverið frumsýndir. 

„Við erum hamingjusamari hér. Það er svo margt sem spilar inn í, en meðal annars heldur það manni á jörðinni á ákveðinn hátt að búa hér, sem er betra fyrir okkur bæði sem listamenn,“ segja hjónin um lífið á Íslandi. 

Saknið þið einhvers frá Bandaríkjunum?

„Það er miklu auðveldara að kynnast nýju fólki í Bandaríkjunum, bæði í New York og LA, heldur en á Íslandi. Við söknum stundum Kanans sem getur verið opinn og forvitinn. Svo er eitt annað, og ég lofa að ég er ekki að segja þetta af því Fallout-þættirnir eru á Amazon, en við söknum Amazon Prime, að fá pantanir á innan við sólarhring beint upp að dyrum,“ segir Aaron. 

Hvernig er íslenskan þín, Aaron?

„Ég hugsa ekki á íslensku, sem getur verið krefjandi í samskiptum. Ég reyni alltaf að tala íslensku hér og flestir taka því mjög vel, en það eru bara vinir mínir sem skipta yfir í ensku fyrir mig, sem er líka krefjandi. Ég geri auðvitað fullt af málfræðivillum í hverri setningu en yfirleitt finnst fólki ég tala íslensku mjög vel og hrósar mér fyrir það, en það er af því að framburðurinn minn er svo góður en ekki málfræðin sem kemur mér stundum í vandræði. Það er líka krefjandi hversu lítið Íslendingar „small talk-a“, en slíkt myndi hjálpa mér mjög mikið,“ segir Aaron sem hvetur fólk til þess að tala við hann þegar það hittir hann og auðvitað á íslensku. 

 

Spenna í loftinu í kringum Fallout

Jarðtengingin sem hjónin tala um kemur sér vel núna en þáttanna Fallout, sem eru sýndir á streymisveitunni Amazon Prime, hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Leikstjórinn Jonathan Nolan leikstýrir þáttunum en hann er maðurinn á bak við hina vinsælu Westworld-þætti.

„Þættirnir eru byggðir á Fallout-tölvuleikjunum sem eiga sér stað í eftir-heimsenda (e. post-apocalyptic) veröld. Söguþráðurinn er samt nýr og fylgir þremur aðalpersónum, þeim Lucy, Maximus og The Ghoul eða Gúllanum,“ segir Aaron sem fer með hlutverk Maximus. „Maximus er ungur maður sem á við ýmsa djöfla að stríða. Hann er meðlimur fylkingarinnar The Brotherhood of Steal,“ segir hann um persónu sína. 

Heimurinn í Fallout er fjarlægur en þrátt fyrir það segir Aaron hægt að tengja við hann á ýmsa vegu. „Þó að heimurinn sé annar eftir kjarnorkusprengjurnar er hann enn þá sá sami á svo margan hátt, kannski sérstaklega þegar kemur að mannlegum samskiptum. Tölvuleikirnir eru líka mjög góðir og við vildum að það myndi skína í gegn í þáttunum.“

 

Finnur þú fyrir væntingunum?

„Já, ég finn fyrir þeim, finnur þú fyrir þeim? Það er einhver spenna í loftinu. Ég díla við það með því að koma heim. Það yrði erfitt að sjá sjálfan mig stanslaust á stórum auglýsingaskiltum úti um allt. Ég drekk líka gott vín og fer í box hjá Davíð Rúnari Bjarnasyni, thugfather. Ef þetta hefði verið fyrsta verkefnið mitt eftir Juilliard þá væri ég að upplifa þetta allt öðruvísi. Það getur verið erfitt að gera sig stærri en maður er, eða að líða eins og maður sé jafn stór og væntingar fólks til manns geta verið. En þær geta verið miklar og það er ekki hægt að mæta þeim.“

Fallout hefur verið vel tekið og nýlega var tilkynnt að farið verður í framleiðslu á annarri þáttaröð af Fallout.

„Ég er rosa spenntur. Ég get ekki beðið eftir að byrja aftur og hitta alla. Það verður gaman að sjá hvað Maximus gerir í þáttaröð tvö.“

 

Mikilvægt að læra af erfiðleikunum 

Fallout er eitt stærsta verkefni Aarons hingað til en hann hefur þurft að hafa fyrir því og leggja mikið á sig til þess að ná langt eins og hann segir blaðamanni þegar hann spyr hvað hafi kennt honum mest á ferlinum. 

„Það er svo margt, til dæmis að læra muninn á því að hafa mikið að gera og að vinna að ákveðnu markmiði. Það var mikilvægt fyrir mig að læra að segja nei við ákveðnum tækifærum ef þau voru ekki í samræmi við mín markmið. Stundum lét það mér líða eins og ég væri að fórna einhverju en það skildi eftir pláss fyrir annað og nauðsynlegra. Auðvitað er líka mikilvægt að taka ekki neinu persónulega og að hafa ekki áhyggjur af því þegar ég fæ nei. Höfnun er daglegt brauð fyrir leikara, þar sem fyrir hvert „já“ eru svona 40 „nei“,“ segir Aaron. 

Dansarinn Lilja er sammála eiginmanni sínum þegar hún er spurð hvað hafi kennt henni mest á listamannsferlinum. 

„Á sömu nótum og Aaron sagði, þá held ég að mikilvægast sé að leyfa mótlæti af öllu tagi að næra sig frekar en að láta það draga úr sér kjarkinn. Lífið á ekki að vera dans á rósum og maður lærir oft mest af því sem er erfitt. Eða að minnsta kosti að taka áskorunum ekki of hátíðlega heldur sem eðlilegum, nauðsynlegum og óumflýjanlegum hluta af lífinu,“ segir Lilja.  

Mannleg hegðun nátengd dansinum

Lilja er með yfirvegaða sýn á hvernig eigi að takast á við mótlæti. Hún nýtur sín því vel um þessar mundir en hún er að klára grunnnám í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. 

„Sálfræðin hafði alltaf verið mér ofarlega í huga og það var bara tími til kominn að bæta því við mig. Ég dreif mig í námið fyrst ég kemst hvort sem er ekki hjá því að velta endalaust mannlegri hegðun fyrir mér. Augljóslega eru þetta mjög nátengdir heimar, dansinn og sálfræðin,“ segir Lilja um námið. 

Hvar liggur ástríða þín sem listamanns?

„Ætli það sé ekki að vinna með dönsurum og að fá svona það „besta“ út úr þeim. Ég er þá ekki endilega að tala um tæknilegu hliðina, heldur ákveðinn kjarna af manneskjunni. Það er langskemmtilegast. Ég hef líka mikla ástríðu fyrir velferð þeirra og að þeim líði vel í sínu starfi. Núna er ég til dæmis að gera rannsókn á tengslum frammistöðukvíða og fullkomnunaráráttu á meðal dansara fyrir útskriftarverkefnið mitt úr HR en það er alveg magnað hve lítið andleg líðan þessa hóps hefur verið rannsökuð miðað við aðrar íþrótta- og listgreinar,“ segir Lilja. 

 

Lilja lærði dans í Bandaríkjunum og starfaði þar eftir útskrift. Hún segir danssenuna vestanhafs upp að ákveðnu marki ólíka þeirri íslensku. 

„Það er alls konar gott í gangi hér heima en senan má alveg við enn meiri fjölbreytileika. Meginmunurinn á Íslandi og Bandaríkjunum er líklega einmitt sá að fjölbreytileikinn er svo margfalt meiri þar. Ég held að það væri til dæmis mjög gott fyrir íslenska dansáhorfendur að fá hingað reglulega sígild verk sem hafa notið mikilla vinsælda um allan heim, til dæmis verk eftir Crystal Pite, Ohad Naharin, William Forsythe og fleiri. En ég tel að slíkt mynda ýta undir og viðhalda áhuga almennings á listforminu. Þetta tíðkast auðvitað bæði í leiklist og tónlist, að ásamt nýsköpun er ákveðin klassík tekin fyrir reglulega sem í mínum huga gefur þeim listgreinum ákveðna rótfestu.“

Segir Lilju færasta listamanninn á heimilinu

Hjónin eru samrýnd og dást að hvort öðru sem listamenn enda segja þau það hafa heillað sig í fari hvort annars í upphafi sambands þeirra. 

„Það er kannski skrítið að segja það, en sem listamaður sem er giftur öðrum listmanni er mjög nauðsynlegt að dást að list þeirra og að hún veiti manni innblástur. Ef mér fyndist Lilja til dæmis ömurlegur dansari og danshöfundur, þá væri mjög ólíklegt að við hefðum byrjað saman. Sambandið okkar væri þá allavega eitthvað furðulegt. Ég segi svo mörgum sem ég vinn með að ég sé ekki færasti listamaðurinn á mínu heimili. Að búa með einhverjum sem getur búið til list á því stigi sem Lilja gerir, veitir mér innblástur. Ég er mjög meðvitaður um að sem leikari er ég yfirleitt alltaf að túlka orð annarra, en langtímamarkmiðið er að skrifa og leikstýra.“

Hefur Aaron veitt þér sem listamanni innblástur?

„Já, auðvitað. Þannig féll ég náttúrulega fyrir honum til að byrja með. Hann hefur bara svo gott innsæi á öllum sviðum lífsins og tekst einhvern veginn alltaf að sjá aðra hlið á teningnum en mér, sem er mjög hollt í nánum samböndum held ég. Og eins og Aaron segir, þá væri frekar óheppilegt ef mér þætti hann ekkert spes leikari,“ segir Lilja. 

 

 

til baka