mið. 27. mars 2024 08:09
Frá gleðigöngu í Bangkok árið 2022.
Taílenska þingið samþykkir hjónabönd samkynhneigðra

Taílenska þingið samþykkti í dag frumvarp til laga um hjónabönd samkynhneigðra. Með lögunum yrði ríkið hið fyrsta í Suðaustur–Asíu til þess að viðurkenna hjónabönd hinsegin fólks.

Fumvarpið var samþykkt með 399 atkvæðum gegn tíu í neðri deild þingsins. Frumvarpið verður nú tekið til atkvæðagreiðslu í efri deild þingsins og síðan verður konungur Taílands að samþykkja það. 

„Í dag sannaði samfélagið að því er annt um réttindi hinsegin fólks,“ sagði Tunyawaj Kamolwongwat þingmaður sem hefur barist fyrir réttindum hinsegin fólks. 

„Núna höfum við loksins sömu réttindi og aðrir.“

 

Í Asíu heimila einungis Taívan og Nepal hjónabönd samkynhneigðra. Hæstiréttur Indlands fól indverska þinginu að gefa út ákvörðun varðandi málið í október. 

Í taílenska frumvarpinu er kveðið á um að orðunum, „karlar“, „konur“, „eiginmenn“ og „eiginkonur“ verði breytt í kynjahlutlaus orð. 

Ef frumvarpið verður að lögum munu samkynja hjón eiga rétt á arfi og réttindi er kemur að ættleiðingum í fyrsta sinn í Taílandi. 

 

til baka