sun. 2. okt. 2022 22:42
Niemann og Hjörvar áttust við á Reykjavíkurskákmótinu í apríl.
Telja Niemann hafa svindlað gegn Hjörvari

Fabiano Caruana, einn fremsti stórmeistari Bandaríkjamanna, segir skák Hans Niemanns og Hjörvars Steins Grétarssonar stórmeistara bera þess merki að Niemann hafi svindlað.

Niemann og Hjörvar áttust við á Reykjavíkurskákmótinu í apríl.

Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum C-squared, þar sem hann fer ásamt þáttastjórnandanum og stórmeistaranum Christian Chirila yfir nokkrar skákir Niemann, en ritstjóri DV vekur athygli á þessu.

Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, hætti í Sinquefield-mótinu fyrir stuttu eftir ósigur gegn Niemann og sakaði hann um svindl.

https://www.mbl.is/sport/frettir/2022/09/26/carlsen_telur_niemann_hafa_svindlad/

Í samtali við mbl.is segist Hjörvar fara í öll mót með því hugarfari að trúa því ekki upp á andstæðinginn að hann sé að svindla. Sorglegt sé að hugsa til þess að svindl eigi sér stað hjá elítuskákmönnum, ef sú er raunin. Caruana og Chirila telja taflmennsku Niemanns afar grunsamlega.

Þunnur og í sömu fötunum og daginn áður

„Hann birtist í fötunum frá því daginn áður, hann lyktaði af áfengi. Ég hugsaði með mér að hann væri örugglega ekki búinn að stúdera neitt svakalega vel fyrir þessa skák. Ég vissi að hann væri mjög góður í byrjunum, hann hefur sýnt það í skákum undanfarin tvö ár,“ segir Hjörvar.

„Hann teflir mjög hratt og teflir afbrigði sem ég bjóst ekki við og hafa ekki þótt vinsæl. Hann er með svör við öllu sem ég geri, sem er svo sem ekki óvenjulegt á þessu „leveli“,“ segir Hjörvar og bætir við að búast megi við slíku gegn skákmönnum með yfir 2650 stig.

„Það var meira hvað hann var slakur yfir skákinni. Ég veit hversu metnaðarfullur hann er og ég veit að hann lifir fyrir skákina, hvort sem hann er búinn að svindla eða ekki. Hann virkilega gerir það,“ segir Hjörvar og snýr sér aftur að skákinni.

 

 

Benti á hluti sem hefðu betur mátt fara

„Byrjunin fer eins og hún fer. Hann virtist vera með allt á hreinu. En síðan heldur hann pressunni áfram, heldur áfram að tefla hratt. Yfirleitt þegar byrjunin er búin sest andstæðingurinn niður, tekur sér kannski 20 til 25 mínútur og hugsar „nú er ég með betra, byrjunin er búin, nú ætla ég að reyna að klára þetta“.“

„En hann hélt þessu tempói gangandi, sem er kannski ástæða þess að Caruana var að tala um að þetta væri grunsamlegt,“ útskýrir Hjörvar. Eftir skákina hafi Niemann og Hjörvar spjallað saman og Niemann bent á hluti sem betur hefðu mátt fara í byrjuninni.

Hjörvar segist ávallt reyna að fara inn í skákmót með því hugarfari að trúa því besta upp á andstæðinginn.

„Ég hef sjálfur verið beðinn að sitja meira við skákborðið vegna þess að andstæðingurinn minn hélt að ég væri að svindla. Þetta var önnur skákin á einum degi í Reykjavíkurskákmótinu. Maður mætir kannski við borðið og er einbeitingarlaus, sérstaklega ef fyrri skákin var löng,“ segir Hjörvar.

Hefur hann tekið eftir því á undanförnum árum að fólk sé taugaóstyrkara og gruni oftar anstæðinginn um svindl.

Ekki séns að Carlsen sé bara tapsár

Hvað finnst þér um ásakanir Carlsen á hendur Niemanns?

„Það er ekki gott ef grunur vaknar um svindl. Þá hefur annað hvort aðilinn sem er borinn sökum, eða aðilinn sem ber uppi ásakanir, rétt fyrir sér. Þá er einhver að fara að sitja eftir með sárt ennið.

Ég trúi ekki að Carlsen sé að saka einhvern um svindl að ástæðulausu. Fyrst voru menn að velta því fyrir sér hvort hann væri tapsár. Það er ekki séns. Hann klárlega hefur eitthvað fyrir sér, annað hvort eitthvað sem hann hefur tjáð sig lauslega um á netinu eða hann er með eitthvað sem hann vill ekki tjá sig um, af ótta við málaferli,“ segir Hjörvar.

Niemann gæti orðið fyrir tjóni sem leiðir til dæmis af því að fá ekki boð á elítuskákmót, sem gæti ýtt af stað málaferlum.

„Carlsen nennir auðvitað ekki að standa í því á þessum tímapunkti. Nýbúinn að segjast ekki ætla að tefla um heimsmeistaratitilinn og langar að hafa gaman af skák. Að festast í svoleiðis í nokkur ár er ekki góður valmöguleiki,“ segir Hjörvar að lokum.

Hér má sjá hlaðvarpsþáttinn, hvar Caruana og Chirila fara yfir skák Hjörvars gegn Niemann.

 

til baka