mið. 24. feb. 2021 16:01
Skriða sem féll í jarðskjálftahrinunni austan við Grindavík.
„Þetta eru svo ótrúlega margir skjálftar“

Ekkert lát virðist vera á skjálftahrinu á Reykjanesskaga og mega íbúar á suðvesturhorninu alveg búast við fleiri stórum skjálftum, þó þeir muni ekki endilega láta sjá sig. Þetta segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

„Reykjanesið er allt skjálftasvæði. Það eru sprungur þvert á Reykjanesið sem geta hrokkið til. [Hrinan] er að raðast á nokkrar sprungur,“ segir Bryndís sem hvetur fólk til að kynna sér hvernig sé best að búa sig undir jarðskjálftum og bregðast við þeim

Spurð hvort eitthvað sé að hægjast á jarðskjálftahrinunni segir Bryndís svo ekki vera. 

„Það er enn mikið að koma inn þó það hafi enginn mjög stór orðið í smá tíma. Við getum ekkert sagt til um það hvort þetta sé búið eða hvort það eigi eftir að koma meira. Við getum alveg búist við fleiri stórum án þess að við lofum því heldur.“

Frétt af mbl.is

 

Meira magn gufustróka en vant er

Bryndís segir að skjálftahrinan sé dreifð um Reykjanesið. Samkvæmt heimasíðu Veðurstofunnar hafa 59 skjálftar yfir þremur að stærð mælst síðan klukkan tíu í morgun. 

„Þetta eru svo ótrúlega margir skjálftar. Við eigum eftir að fara yfir marga. Það tekur svo mikinn tíma að fara eftir hvern einasta, sérstaklega þegar þeir eru svona stórir, sjást á mörgum mælum og svona.“

Hvítir gufustrókar sáust á Höskuldarvöllum á Reykjanesskaga en þeir eru í grennd við fjallið Keili. Stærsti skjálftinn í fyrrnefndri hrinu varð í rétt upp úr klukkan tíu en hann var af stærðinni 5,7 og átti upp­tök sín 3,3 kíló­metra suð-suðvest­ur af Keili á Reykja­nesskaga.

Spurð um gufustrókana segir Bryndís að þeir séu ekki óalgeng sjón, þeir sjáist oft á svæðinu en séu í meira magni núna. Hún viti þó ekki hvort bein tengsl séu á milli skjálftanna og gufustrókanna.

til baka