mið. 1. júlí 2020 22:48
Lögreglan óskar nú eftir að ná tali af þessum manni sem sést ganga um Lørenskog daginn sem Anne-Elisabeth Hagen hvarf fyrir hátt í tveimur árum. Lögmaður lögreglu segir þessa nýju uppgötvun svo seint á ferð þar sem rannsakendur hafi þurft að horfa á 6.000 klukkustundir af efni öryggismyndavéla í Lørenskog.
Enn klórað í bakkann í Hagen-máli

Lögreglan í Nedre-Romerike óskar nú eftir að ná sambandi við mann sem sést á upptökum nokkurra öryggismyndavéla síðustu klukkustundina áður en aldrei heyrðist meir frá Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu norska milljarðamæringsins, fjárfestisins og verkfræðingsins Tom Hagen, að morgni 31. október árið 2018. Þá 20 mánuði sem nú eru liðnir frá einu voveiflegasta mannshvarfi Noregs hefur lögreglan hvorki komist lönd né strönd við rannsókn málsins.

Norskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið í dag, þar á meðal ríkisútvarpið NRK sem gaf málinu ríflegt rými í aðalfréttatíma sínum í kvöld. Telur lögregla að byggja megi á upptökunum að maðurinn óþekkti hafi nálgast heimili Hagen-hjónanna við Sloraveien í Lørenskog æ meira með hverri upptöku. Hann er þó ekki grunaður í málinu enn sem komið er heldur fýsir lögreglu aðeins að heyra frá honum um ferðir hans morguninn örlagaríka.

6.000 klukkustundir af upptökum

„Lögreglunni hefur ekki tekist að bera kennsl á manninn á upptökunum. Förum við þess vegna fram á að hann sjálfur, eða þeir sem til hans kunna að þekkja, hafi frumkvæði að því að ræða við lögreglu,“ segir Haris Hrenovica, lögmaður lögreglunnar, í samtali við norska dagblaðið VG í dag.

Hverju skyldi það sæta að lögregla kastar nú fram þessum glænýju gögnum hátt í tveimur árum eftir hvarf Anne-Elisabeth Hagen?

„Gögn úr myndavélum í þessu máli eru 6.000 klukkustundir, þau eru gríðarlega umfangsmikil,“ svarar Hrenovica. „Gæði upptakanna eru heldur ekki alltaf þau bestu, ekki minnst vegna veðursins þennan morgun. Við lýsum eftir þessum manni núna vegna þess að við óskum eftir að vita hver hann og viljum ræða við hann,“ segir Hrenovica.

Upptökurnar sem lögmaðurinn vísar til sýna þennan sama mann ganga um torgið milli Metrosenteret og Lørenskog Hus og eftir það halda í norðurátt, yfir gangbrúna sem liggur yfir Ríkisveg 159 og í átt að Mailand-skólanum.

„Síðasta upptakan af honum sýnir hann stefna til móts við Langvannet,“ segir Hrenovica, en það er vatnið við heimili Hagen-hjónanna.

Handtaka sem reyndist vindhögg

Lögreglan handtók Tom Hagen 28. apríl, eins og mbl.is greindi frá, og var honum sleppt úr gæsluvarðhaldi 8. maí í kjölfar þess að Lögmannsréttur Eiðsifjaþings og síðar Hæstiréttur Noregs úrskurðuðu að málatilbúnaður lögreglunnar í Nedre-Romerike gegn Hagen héldi ekki vatni. Hugðist lögregla handtaka verkfræðinginn sjötuga um leið og hann gekk úr varðhaldinu en Kirsti Guttormsen, héraðssaksóknari í Ósló, stöðvaði lögregluna þá af og bannaði frekari afskipti af Hagen nema rannsakendur gætu sýnt fram á ný gögn í málinu sem teldust hafa verulega þýðingu um meinta sök fjárfestisins.

Síðan hefur lögregla meðal annars leitað í skólpræsi við heimili hjónanna en ellegar ekki haft erindi sem erfiði í því sem nú er án vafa orðin umfangsmesta og dýrasta sakamálarannsókn Noregs án þess að margt hafi þar komið fram í dagsljósið sem veitt geti vísbendingar um örlög Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu eins auðugasta manns Noregs.

NRK
VG
Dagbladet

til baka