„Þetta er bara alveg ótrúlega sérstakt ástand hérna,“ segir Jón Emil Claessen Guðbrandsson, tæplega fimmtugur verkefnisstjóri hjá fyrirtækinu Infor í New York, en hann býr ásamt bandarískri konu sinni og 14 ára dóttur þeirra í Brooklyn þar sem þau hjónin vinna nú heiman frá, en bæði eru í störfum sem leyfa heimavinnu. Kona Jóns Emils, Kathleen Mercado, starfar hjá stéttarfélagi sviðsleikara.
„Hér hefur hægst á öllu mannlífinu, aðeins nauðsynlegasta þjónusta er veitt í borginni, matvöruverslanir eru opnar en fjöldatakmarkanir eru auðvitað alls staðar. Sumar vörur rjúka hraðar út en aðrar, til dæmis klósettpappírinn og af einhverjum ástæðum eru allir að kaupa hveiti, það er að verða ófáanlegt í New York,“ segir verkefnisstjórinn sem er menntaður í enskum bókmenntum auk MBA-gráðu í upplýsingatæknistjórnun.
Hjólabúðir mala gull
„Svo er nú annað dálítið merkilegt, hjólabúðir og verkstæði komast nú í álnir,“ segir Jón Emil og skýrir með því að íbúar New York, þar sem 8.448 manns voru í gærkvöldi látnir af völdum kórónuveirunnar, forðist almenningssamgöngur eins og heitan eldinn vegna smithættu.
Hvernig skyldi andinn vera í borginni, einum fjölsóttasta og annálaðasta ferðamannastað Bandaríkjanna í skugga þess ástands sem nú ríkir?
„Hér ríkir náttúrulega gríðarleg samfélagsleg einangrun, fólk er bara að þreyja þorrann og bíða eftir að þetta klárist. Auðvitað eru einhver mörk á því hve lengi samfélagið þolir þessa einangrun, svo ekki sé minnst á efnahagslegu hliðina á þessu,“ segir Jón Emil.
Hann segir samstöðumátt borgarbúa þó með hreinum eindæmum. „Það er alveg magnað skal ég segja þér, hér fer fólk út á svalir klukkan sjö hvert kvöld, klappar og lemur potta og pönnur til að votta heilbrigðisstarfsfólki virðingu sína. Samhugurinn er gríðarlegur, þetta er bara eins og búsáhaldabyltingin á Íslandi, bara með öðrum formerkjum,“ segir Jón Emil og skellir upp úr.
Gefur fólki von
Ber hann Andrew Cuomo ríkisstjóra vel söguna. „Hann sýnir mikla röggsemi, er með daglega fundi og gefur fólki kannski ákveðna von í þessu hörmungarástandi,“ segir Jón Emil og játar að ekki veiti af, þau hjónin séu til dæmis með dóttur á gagnfræðaskólaaldri, skólarnir séu lokaðir og tugir kennara hafi auk þess sýkst af veirunni. Eðlilega hafi slíkar staðreyndir djúpstæð áhrif á þá kynslóð sem landið mun erfa.
„Ég fer flestra minna ferða hjólandi og nú er það svo að ég lít varla til hægri eða vinstri lengur, það eru engir bílar á götunum,“ segir Jón Emil um breytta þjóðfélagsmynd.
Bandaríkjastjórn hafi hleypt af stokkunum björgunaraðgerð fyrir fólk í þrengingum og ekki síður fyrirtæki sem berjast í bökkum. „Hægt er að sækja um það sem er kallað „small business loan“ auk þess sem atvinnuleysisbætur hafa verið stórauknar, hér eru sex milljónir manna að sækja um atvinnuleysisbætur núna, hugsaðu þér það,“ segir Jón Emil við blaðamann sem staddur er í Noregi, samfélagi rúmlega fimm milljóna íbúa.
„Annað eins atvinnuleysi hefur ekki sést hér, þetta er miklu meira en í hruninu á sínum tíma,“ segir Jón Emil og snýr máli sínu að Donald Trump forseta og stjórn hans. „Um það ríkja deildar meiningar hversu vel og snemma alríkisyfirvöld brugðust við þessum voveiflega faraldri. Nú er hins vegar búið að kalla út þjóðvarðlið hér í New York, spítalaskip liggur hér við festar og málunum er tekið af gríðarlegri alvöru,“ segir Íslendingurinn sem búið hefur í Bandaríkjunum í 21 ár.
Slysatíðni hrunin
„Svo er líka önnur hlið á þessu hvað heilbrigðiskerfið snertir, slysatíðni hefur algjörlega hrunið niður samhliða því sem hægist á atvinnulífinu,“ bendir hann á. „Ég kemst ekki í líkamsrækt og get ekki látið klippa á mér hárið, það sem eftir er af því,“ segir Jón Emil glettinn.
„Síðast var verið að tala um að New York opnaði 15. maí en nú þegar hefur allt verið lokað í margar vikur, auðvitað eru takmörk fyrir því hve lengi þjóðfélagið og efnahagskerfið þolir þetta ástand.“
Hann segir þau fjölskylduna blessunarlega hafa sloppið við sóttina fram að þessu. „Einn kollegi minn fékk þetta hins vegar og varð fárveikur, smitaðist líklega af konunni sinni sem er læknir. Þetta er mjög heilsuhraustur maður, en svo var komið fyrir honum á tímabili að hann gat ekki talað í tuttugu sekúndur án þess að fá hóstakast, en hann er reyndar að ná sér núna,“ segir Jón Emil Claessen Guðbrandsson frá Brooklyn í New York í samtali við mbl.is, orðinn langeygur eftir endalokum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.