fim. 18. apr. 2019 21:37
Sjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, sir David Attenborough segir jarðarbúa standa frammi fyrir „óafturkræfum skaða á náttúrunni og samfélagslegu hruni“.
Attenborough varar við „hörmungum“

Sjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, sir David Attenborough, hefur gefið út harðorðustu yfirlýsingu sína til þessa um þá ógn sem heiminum stafar af loftslagsbreytingum. Í þætti sem sýndur er á BBC Climate Change – The Facts, sem útleggja má sem Loftslagsbreytingar — staðreyndirnar, útlistar Attenborough umfang þeirra erfiðleikatíma sem jörðin standi nú frammi fyrir.

Segir hann jarðarbúa standa frammi fyrir „óafturkræfum skaða á náttúrunni og samfélagslegu hruni“. Enn sé þó von, svo framarlega sem næsta áratug verði gripið til róttækra aðgerða til að takmarka áhrifin.

BBC segir nýja þátt Attenboroughs útlista vísindin að baki loftslagsbreytingum, áhrifin sem þær hafa nú þegar haft og hvernig sé hægt að berjast gegn þeim. „Á þeim 20 árum sem eru liðin frá því að ég byrjaði fyrst að tala um áhrif loftslagsbreytinga á jörðina, þá hafa aðstæður breyst mun hraðar en ég nokkurn tímann ímyndaði mér,“ segir Attenborough.

„Þetta kann að hljóma skelfilega, en það eru vísindalegar sannanir fyrir því að ef við grípum ekki til róttækra aðgerða innan næstu tíu ára þá kunnum við að standa frammi fyrir óafturkræfum skaða á lífríkinu og hruni mannlegs samfélags.“

til baka