sun. 17. feb. 2019 19:02
Skaflarnir við suðurhliðina á Hótel Siglunesi voru voldugir í dag.
Voru að losa bílana úr sköflunum

„Það féll gífurlegur snjór í nótt og það eru allar götur í bænum ófærar, nema þær sem hjálparsveitin er búin að ryðja,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík íbúi á Siglufirði. „Um tíma var svo ófært í gegnum Héðinsfjörð en nú er búið að opna þar aftur.“ Siglufjarðarvegurinn er hins vegar algjörlega ófær.

Margrét, sem var á leið akandi til Reykjavíkur er mbl.is talaði við hana, lenti í því að festa bílinn í skafli áður en hún komst út úr Siglufirði. Hún segir björgunarsveitina hafa verið fljóta að bregðast við, en annars hafi verið fátt fólk á ferðinni. „Þeir sáu okkur fara beint í skafl og voru komnir innan tveggja mínútna að aðstoða,“ bætir Margrét við.

Fín æfing fyrir strákana

Einar Áki Valsson hjá björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði segir sveitina hafa dregið nokkra bíla upp úr sköflum í dag. „Þetta er leiðinlegur snjór sem þjappast ekkert,“ segir hann og kveður hann að mestu vera eftir ofankomu næturinnar. „Þetta er þó fín æfing fyrir strákana í að vera á ferðinni,“ bætir hann við og samsinnir því að flestar götur bæjarins séu illfærar.

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands má búast við áframhaldandi ofankomu á Siglufirði og nágrenni fram yfir hádegi á morgun, en þá fer eitthvað að draga úr.

 

 

Margrét rekur hótel Siglunes ásamt manni sínum og á myndunum sem hún sendi mbl.is sést að ekki munaði miklu að gesti snjóaði inni. „Það var skemmtilegt, miðað við þetta veður, að það var setið á hverju einasta borði í gærkvöldi og fólk gerði sér ferð frá Akureyri í þessu vetrarveðri til að koma á marokkóska staðinn,“ segir hún.

Sjálf var Margrét höfuðborgarbúi þar til fyrir tveimur árum og segir fannfergið nú kalla fram í hugann minningar úr Breiðholtinu í æsku.

Blint, mikil ofankoma og snjóflóðahætta

Líkt og áður sagði er Siglufjarðarvegurinn yfir Ketilás lokaður og verður hann ekki opnaður í dag samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. „Það er mjög blint, mikil ofankoma og snjóflóðahætta,“ segir Jónas Gunnlaugsson, vaktstjóri á vaktstöð norður.

Ágætisfæri er þó inn á Ólafsfjörð og Dalvík og svo áfram yfir Öxnadalsheiði, þó að skafrenningur sé á öllum leiðum. „Eftir að þjónustu lýkur má þó búast við að það fari fljótt yfir í þæfing og verra,“ segir hann og kveður spáð versnandi veðri á Tröllaskaganum í kvöld. „Það er búið að snjóa mikið þarna í dag, síðan er víða hvasst og það skefur fljótt í stóra skafla á þeim stöðum þar sem snjór safnast saman,“ segir Jónas og minnir á að oft þurfi ekki nema einn skafl til að loka leið.

til baka