mið. 12. des. 2018 23:47
Enginn af miðlum American Media Inc. birti sögu McDougal og skömmu síðar greiddi Cohen fyrirtækinu 125.000 dali fyrir frásögnina.
Slúðurmiðill tók þátt í þögguninni

Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa komist að því að fyrirtækið American Media Inc., sem gefur út slúðurblöð á borð við The National Enquirer, hafi tekið þátt í að halda frásögnum tveggja kvenna af sambandi þeirra við Donald Trump Bandaríkjaforseta leyndu.

New York Times greinir frá því að framkvæmdastjóri American Media Inc., David J. Pecker, hafi veitt mikilvæg sönnunargögn í máli Michael D. Cohen, fyrrverandi lögfræðings Trump, sem í dag var dæmdur í þriggja ára fangelsi. Pecker hafði áður gert samning við saksóknara þess efnis að fyrirtæki hans yrði ekki ákært. Þess í stað yrði fyrirtækið samvinnuþýtt við rannsókn málsins.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/04/19/ma_segja_fra_sambandinu_vid_trump/

Samkvæmt saksóknurum mun American Media Inc. hafa greitt Karen McDougal, þáverandi Playboy-fyrirsætu sem kveðst hafa átt í sambandi við Trump, 150.000 Bandaríkjadali fyrir frásögn hennar vegna samkomulags við Cohen og verðandi forseta.

Enginn af miðlum American Media Inc. birti söguna, og skömmu síðar greiddi Cohen fyrirtækinu 125.000 dali fyrir frásögnina. Til að hylja slóð greiðslunnar var farið í gegnum ýmis undirfyrirtæki, fyrirtæki ótengd Americen Media Inc. og ný fyrirtæki sem voru sérstaklega stofnuð í þessum tilgangi.

American Media Inc. mun einnig hafa tekið þátt í að þagga niður sögu Stormy Daniels snemma í ferlinu.

til baka