mán. 25. júní 2018 06:13
Lá í sætinu án öryggisbúnaðar

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg síðdegis í gær þar sem öryggisbúnaði var áfátt. Tæplega ársgamalt barn lá í aftursæti bifreiðarinnar án öryggisbúnaðar og sat móðir þess hjá barninu en faðirinn ók bifreiðinni.

Ráðist var á íbúa við Strandgötu í nótt en menn komu á heimili mannsins og réðust á hann með hnefahöggum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er málið í rannsókn og líklega vitað hverjir voru þar að verki.

Ölvaður á tvöföldum hámarkshraða 

Bifreið var ekið á ljósastaur á Breiðholtsbraut við Reykjanesbraut skömmu fyrir miðnætti í gær. Lögreglumenn höfðu skömmu áður mælt bifreiðina á 120 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 60 km/klst og komu þeir á vettvang skömmu eftir óhappið.

Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og mun ekki hafa verið í öryggisbelti. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild en ekki er vitað um meiðsl hans. Bifreiðin var flutt af vettvangi með Króki og Orkuveita tryggði vettvang varðandi ljósastaurinn.

Um miðnætti var tilkynnt innbrot í bifreiðir við verkstæði í Höfðahverfi. Einnig voru skemmdir unnar á hurð verkstæðisins þar sem reynt hafði verið að brjótast inn.

Tveir menn voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar vegna ölvunar og annarrar vímu í gærkvöldi. Sá fyrri var handtekinn klukkan 21:52 á Hverfisgötu við Þjóðleikhúsið. Sá síðari var handtekinn klukkan 22:45 á Laugavegi grunaður um rúðubrot.

Klukkan 00:01 var bifreið stöðvuð á Hringbraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Klukkan 03:52 var bifreið stöðvuð á Sæbraut við Snorrabraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Klukkan 01:04 var bifreið stöðvuð við Suðurfell. Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum.

Klukkan 02:40 var bifreið stöðvuð á Nýbýlavegi. Ökumaðurinn reyndist vera án ökuréttinda. Ítrekað brot. Þarf að endurtaka ökupróf.

Klukkan 03:01 var bifreið stöðvuð við Stórahjalla. Ökumaðurinn reyndist vera án ökuréttinda og þarf að endurtaka ökupróf.

Klukkan 00:55 var bifreið stöðvuð á Stórhöfða. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og aka sviptur ökuréttindum.

 

til baka