mán. 20. nóv. 2017 17:07
Barnshafandi konum á síðustu þremur mánuðum meðgöngunnar er ráðlagt að sofa á hliðinni.
Betra fyrir barnshafandi að sofna á hliðinni

Barnshafandi konum á síðasta þriðjungi meðgöngunnar er ráðlagt að sofa á hliðinni til að minnka líkur á því að fæða andvana barn. Bresk rannsókn sem náði til þúsund kvenna leiddi í ljós að áhættan á því að fæða andvana barn tvöfaldaðist ef kona sofnar á bakinu. BBC greinir frá.   

Skoðaðar voru 735 fæðingar þar sem börnin fæddust lifandi og 291 þar sem barn fæddist andvana. Stellingin sem konurnar sofnuðu í hafði mest áhrif á fæðingarútkomuna en talið er að blóðflæði í fylgju barnsins minnki þegar kona liggur á bakinu vegna þyngdarinnar.

Sérfræðingar segja konum sem vakna á bakinu að örvænta ekki heldur hreinlega að snúa sér á hliðina og halda áfram að sofa. Yfirleitt liggja konur lengur í sömu stellingu þegar þær sofna og því er áhættan meiri þegar svefninn er að færast yfir. 

Að meðaltali fæðist andvana barn í 225 fæðingum í Bretlandi. Rannsakendur áætla að koma megi í veg fyrir að 130 andvana fædd börn komi í heiminn ef óléttar konur fylgi þessum tilmælum og sofni á hliðinni. 

Rannsóknin birtist í British Journal of Obstetrics and Gynaecology.

til baka