fös. 8. sept. 2017 13:59
Usher neitar sök.
Usher neitar sök

Tónlistarmaðurinn Usher neitar að hafa útsett þrjá einstaklinga fyrir herpes-veirunni, en samkvæmt frétt Daily Mail var lögð var fram sameiginleg lögsókn á hendur honum.

Samkvæmt dómsskjölum, sem miðillinn New York Daily News komst yfir í gær, neitar söngvarinn öllum ásökunum. Þó greinir hann frá því að ef ske kynni að kynmök hafi átt sér stað hafi það ekki verið ásetningur hans að skaða neinn. Enn fremur kemur fram í dómsskjölunum að sá skaði sem ákærendur telja sig hafa orðið fyrir sé kæruleysi þeirra sjálfra að kenna.

Í júlí síðastliðinn láku skjöl sem sýna fram á að tónlistarmaðurinn sé smitaður af veirunni og hafi líkast til verið frá árinu 2009. Þá kom einnig fram að hann hefði smitað ónefnda konu af vírusnum árið 2012.

Ung kona, að nafni Quantasia Sharpton, er ein þeirra þriggja sem standa að ofangreindri lögsókn, en hún heldur því fram að hún hafi stundað óvarið kynlíf með söngvaranum. Þá segir hún að söngvarinn hafi ekki greint henni frá því að hann væri smitaður af veirunni.

„Hann varaði mig aldrei við því að hann væri með kynsjúkdóm,“ sagði Sharpton á blaðamannafundi í síðasta mánuði.

„Þegar ég frétti að hann væri með herpes trúði ég því ekki. Ég eignaðist barn á síðasta ári og ég vissi að ég væri ekki smituð af veirunni. Ég hafði þó samband við Lisu Bloom (lögmann Sharpton) til þess að komast að því hver réttur minn er.“

„Þrátt fyrir að ég sé ekki smituð af veirunni var ég miður mín þegar ég frétti af þessu. Ég hefði aldrei samþykkt að sofa hjá honum hefði ég vitað að ég gæti smitast af ólæknandi kynsjúkdómi.“

Eins og áður kom fram neitar Usher sök, en hann hefur meðal annars greint frá því að Sharpton sé ekki hans týpa.

til baka