þri. 30. maí 2017 10:30
38 mál á dagskrá Alþingis í dag

Þrjátíu og átta mál eru á dagskrá Alþingis í dag en þingfundur hófst kl. 10. Enn er stefnt að þinglokum á morgun. Meðal umdeildra mála sem ekki eru á dagskrá þingsins í dag eru áfengisfrumvarpið og tálmunarfrumvarpið en þar er hins vegar að finna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, frumvarp um jafnlaunavottun og frumvarp um viðbótarfjármögnun vegna Vaðlaheiðarganga.

Á dagskrá þingsins er hvorki að finna frumvarp um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólksfrumvarp um framlengingu samninga um notendastýrða persónuega aðstoð. Þá er þar ekki að finna frumvarp heilbrigðisráðherra um rafsígarettur.

Þingmenn munu hins vegar fjalla um breytingar á umferðarlögum, sem gera ráð fyrir að ráðherrar og sveitarstjórnir geti sett reglur um og innheimt gjald fyrir notkun bílastæða og tengda þjónustu, s.s. viðveru bílastæðavarða og salernisaðstöðu.

Á dagskránni er einnig frumvarp um framkvæmdasjóð ferðamannastaða, frumvörp um umgengni við nytjastofna sjávar og frumvarp um fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga

Þar er einnig að finna nokkur þingmannamál, m.a. frumvarp Óla Björns Kárasonar um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur um jafnræði í skráningu foreldratengsla og frumvarp Björns Leví Gunnarssonar um aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá.

til baka