Svíakonungur til Íslands á morgun

Sænsku konungshjónin koma í opinbera heimsókn til Íslands á morgun.
Sænsku konungshjónin koma í opinbera heimsókn til Íslands á morgun. mbl.is/Bergþóra Njála

Karl Gústaf Svíakonungur, Silvía Svíadrottning og Viktoría krónprinsessa koma í þriggja daga opinbera heimsókn til Íslands á morgun í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar.

Með þeim í för verður Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, embættismenn frá utanríkisráðuneyti Svíþjóðar og konungshöllinni auk áhrifamanna úr sænsku viðskiptalífi sem taka þátt í viðskiptastefnu á Nordica hóteli á miðvikudag.

Þá heimsækja Ísland í tengslum við heimsóknina sænskir glerlistamenn sem verða viðstaddir afhendingu og sýningu á sænskri glerlistargjöf í Listasafni Íslands á morgun og einnig vísindamenn víða að komnir sem sitja ráðstefnu sama dag í Öskju um loftslagsbreytingar í veröldinni.

Sænsku konungshjónin koma til landsins í fyrramálið og halda beint til Bessastaða þar sem forsetahjónin taka á móti þeim við hátíðlega athöfn að viðstaddri ríkisstjórn Íslands og handhöfum forsetavalds.

Eftir hádegisverð í boði forsetahjóna halda Svíakonungur og Viktoría krónprinsessa í Öskju, náttúruvísindahús Háskóla Íslands, þar sem þau ásamt forseta Íslands sitja hluta af alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Silvía drottning og forsetafrú Dorrit Moussaieff heimsækja Barnaspítala Hringsins eftir hádegi á morgun.

Síðdegis á morgun liggur leið konungs- og forsetahjónanna í Listasafn Íslands. Síðan mun Sigurður Einarsson stjórnarformaður KB-banka kynna alþjóðlega starfsemi bankans, m.a. í Svíþjóð. Eftir þá kynningu mun Svíakonungur afhenda forseta Íslands og menntamálaráðherra glerlistargjöf frá sænsku þjóðinni, 63 glerlistaverk eftir þekktustu glerlistamenn Svía sem safnað var að undirlagi Christinu Nilroth frá Gautaborg. Gjöfin er hingað komin með stuðningi KB-banka í Stokkhólmi og á Íslandi en bankinn hefur jafnframt afráðið að styrkja einn Íslending á ári í fimm ár til náms í glerlist í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert