Engin ummerki um eldsumbrot

Sigketill við Grímsvötn í dag.
Sigketill við Grímsvötn í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Vísindamenn sem flugu yfir Grímsvötn í dag hafa ekki séð nein ummerki um að eldgos sé að hefjast í eldstöðinni. „Eina sem við sáum voru ummerki um hlaupið sjálft,“ segir Eyjólfur Magnússon jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is.

„Það eru ekki nein merki um nein umbrot að öðru leyti,“ segir Eyjólfur ennfremur. Hann var á meðal sex vísindamanna frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands sem flugu með Landhelgisgæslunni yfir svæðið.

Þeir fóru í loftið um kl. 11 og lentu kl. 14:15.

Í nótt mældist aukinn titringur á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli. Að sögn Eyjólfs er ekki vitað hvað olli þessum titringi. „Það eru hlutir sem við getum bara fabúlerað um,“ segir hann. 

Teknar voru radarmyndir af svæðinu sem eru mjög gagnlegar þegar skyggni er lítið. „Það getur hjálpað okkur að staðsetja ef einhver umbrot eru í gangi,“ segir Eyjólfur.

Skyggni hafi verið takmarkað á svæðinu en undir lokin hafi verið tekið lágflug eftir jöklinum. „Þá gátum við flogið undir skýjahulunni. Þá náðum við sjónflugi á svæðið,“ segir hann og bætir við að það hafi alveg verið á hreinu að engin umbrot hafi verið í gangi.

„Það er alveg ljóst að það er ekkert gos sem nær yfirborði þarna og ólíklegt að nokkuð sé að gerast undir jöklinum,“ segir Eyjólfur.

Vísindamennirnir munu nú bera saman bækur sínar og fara yfir rannsóknargögnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert