Grútarblautum fálka hjálpað

Þorsteinn Sæmundsson forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra kemur fálkanum fyrir í …
Þorsteinn Sæmundsson forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra kemur fálkanum fyrir í búri sem hann var fluttur í til Reykjavíkur

Starfsmenn Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands fundu í gær máttfarinn og grútarblautan fálka í Sléttuhlíð í Skagafirði rétt norðan við Tjarnir í Sléttuhlíð. 

Þeir gerðu Náttúrustofu Norðurlands vestra viðvart og kom starfsmaður hennar með búr, sem fuglinn var settur í og fluttur á Sauðárkrók. Þar var fálkinn skoðaður og er greinilegt að hann hefur lent í grút.

Fram kemur á heimasíðu Nátttúrustofunnar að fuglinn hafi verið þrekaður þegar hann fannst og hoppaði um en náði sér ekki á flug. Hann hresstist nokkuð fljótt eftir að honum hafði verið gefið að éta og eftir næturhvíld virtist hann nokkuð sprækur.

Fálkinn  var sendur til Reykjavíkur og verður hlúð að honum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Verður fuglinum sleppt aftur í Skagafirði fljótlega ef allt gengur að óskum. 

Ekki er langt síðan grútarblautur örn fannst á Snæfellsnesi og var hann einnig fluttur í Húsdýragarðinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert