Áfram borað í Kröflu

Frá borun við Kröflu
Frá borun við Kröflu

Síðustu vikurnar hefur verið unnið að því að flytja öflugasta bor landsins, Tý, norður í Kröflu. Fyrsta verkefni borsins er borun allt að 4,5 kílómetra djúprar rannsóknarholu í Kröflu sem hefur þann tilgang að kanna vinnslugetu háhitasvæðisins á meira dýpi en áður hefur þekkst hérlendis. Holan er fyrsta rannsóknarholan af þremur í íslenska djúpborunarverkefninu og er á margan átt einstök á heimsvísu.

Djúpborunarholan var boruð niður á um 800 metra dýpi á síðasta ári en nú er stefnt að því að bora niður á allt að 4500 metra dýpi, taka borkjarna, vökvasýni og stunda ýmsar aðrar rannsóknir á leiðinni. Ekki liggur fyrir hvenær hafist verður handa en áætlað er að verkið standi frá miðjum marsmánuði og fram í júní.

Á heimasíðu stéttarfélaganna í þingeyjarsýslum segir að ef niðurstöður borana reynist árangursríkar, gæti mat á vinnslugetu íslenskra jarðhitasvæða aukist til muna.

Einnig verður farið í lagfæringu á einni holu í nágrenni við Kröflustöð og hugsanlega verða boraðar ein eða tvær nýjar rannsóknarholur, sem ekki hafa verið staðsettar endanlega.

Á síðustu árum hafa verið boraðar 8 til 10 rannsóknarholur árlega á NA-landi og er þetta því verulegur samdráttur í fjölda borverka fyrir norðan.

Heildarkostnaður við boranir ársins verður á bilinu einn til tveir milljarðar króna, sem er svipuð upphæð og varið hefur verið til borana á NA- landi á síðustu árum.

Vefur djúpborunarverkefnisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert