Þórólfur Árnason borgarstjóri um skýrslu um meint verðsamráð olíufélaganna: Varð samhengið ljóst eftir á

Þórólfur Árnason, borgarstjóri og fyrrverandi markaðsstjóri Olíufélagsins, segir að sér hafi ekki verið ljóst samhengi hlutanna varðandi samráð olíufélaganna að fullu fyrr en eftir á, í vinnunni með Samkeppnisstofnun, og nú við lokaskýrslu samkeppnisráðs. Þetta sé m.a. vegna þess að skýrslan taki til starfsemi olíufélaganna áður en hann hóf störf hjá Olíufélaginu og einnig eftir að hann lauk þar störfum.

Hann segir að svo virðist af gögnum málsins sem hann hafi e.t.v. rekist illa í því samfélagi sem olíufélögin voru og það komi fram í skýrslu samkeppnisráðs. Þar sé til að mynda greint frá því að tiltekinn starfsmaður Olís hafi kvartað undan því að hann þegði á sameiginlegum fundum olíufélaganna og léti lítið í ljós á þeim. Þess vegna hafi hann líka horfið á braut og hafið störf hjá Tali.

Sat ekki ólögmæta samráðsfundi forstjóra

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins sl. laugardagskvöld sagði Þórólfur: "Ég náttúrlega sat ekki þessa fundi forstjóranna og hafði ekkert í höndunum um þeirra gjörðir eða þá pappíra, sem nú virðast liggja frammi. Þetta liggur nú mun opnara fyrir svona eftir á þegar menn sjá þetta heldur en þegar menn voru starfandi í þessum fyrirtækjum væntanlega."

Í skýrslu samkeppnisráðs er vísað til tölvupósts sem Þórólfur sendi starfsbróður sínum þar sem hann segir: "Mér er ljóst að forstjórar hafa rætt um það að vinna að hækkaðri álagningu." Þá segir hann í tölvupóstinum að ekki hafi farið framhjá honum að forstjóri Olís, þ.e. Einar Benediktsson, teldi að Bjarni Bjarnason hjá Olíufélaginu ætti að hafa frumkvæði að því að menn hittust. Við sama tækifæri hefði komið fram að forstjóri Olís hefði talið álagningu lakari á MD olíu heldur en á flotaolíu og svartolíu. "Ég man eftir því að minnst var á þetta hér uppi á 5. hæð sl. fimmtudagsmorgun," segir í tölvupóstinum frá Þórólfi. Í umfjöllun í skýrslu samkeppnisráðs um útboð, sem fram fóru á árinu 1996, er vitnað í tölvupóst frá Þórólfi til forstjóra Olíufélagsinis. Þar segir Þórólfur: "Eftir þreifingar Skeljungsmanna um sameiginlega stefnu í útboðsmálum bað ég um tillögu frá þeim, sem forstjórar geta rætt. Friðrik Stefánsson hjá Skeljungi er ekki tilbúinn með tillögu, hann ræddi við Kristinn Björnsson sem vill að forstjórar hittist fyrst til að ræða hvort grundvöllur sé. Getur þú fundað með forstjórunum n.k. þriðjudag 2. júlí. Mér skilst að bæði Einar og Kristinn geti þá."

Þórólfur segir að hann hafi að sjálfsögðu setið marga fundi með forstjórum olíufélaganna og öðrum starfsmönnum. Þar hafi m.a. verið fjallað um stofnun Gasfélagsins ehf., Úthafsolíu ehf. o.fl. Hann hafi hins vegar ekki setið fundi þar sem meint ólöglegt samráð forstjóranna hafi farið fram. Um slíka fundi hafi hann verið að ræða í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins síðastliðinn laugardag. Því sé ekkert ósamræmi í því sem hann hefur sagt að undanförnu og því sem fram kemur í skýrslu samkeppnisráðs.

Jákvætt að samrekstri verði hætt

Þórólfur segir að forstjórar olíufélaganna hafi eðlilega falið sínum undirmönnum framkvæmd á tilteknum verkefnum. Það hafi átt við um hann og hann hafi vegna þessa setið fundi með fulltrúum hinna olíufélaganna. "Slíkir fundir voru stundum settir á af fyllilega eðlilegu tilefni, til að mynda varðandi eignaumsýslu vegna samrekstrar á bensínstöðvum, birgðatönkum, olíuúrgangsmálum o.fl. Og það sem mér finnst jákvæðast af öllu við skýrslu samkeppnisráðs og niðurstöðu er að nú loksins, strax innan sex mánaða, beri að hætta þessu. Það er reyndar með ólíkindum að það skuli ekki hafa verið gert fyrr. Ég vona að það muni færa viðskiptasiðferðið á hærra plan," segir Þórólfur Árnason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert