Unga Drappier-fólkið lætur til sín taka

Clarevallis er skemmtilegt vín sem boðar kynslóðaskipti hjá Drappier.
Clarevallis er skemmtilegt vín sem boðar kynslóðaskipti hjá Drappier. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson

Það er víðar en á Íslandi sem fjölskyldan er þungamiðja samfélagsins. Það á ekki síður við í Champagne. Mörg kampavínshúsin byggja á langri og merkilegri fjölskylduhefð og ekki óalgengt að starfsemin reki sig aftur um sex til tíu ættliði. Drappier-húsið er þar engin undantekning og um þessar mundir búa þrjú systkini sig undir að taka við starfseminni úr hendi föður síns, Michels Drappiers. Hann hefur frá árinu 1979 stýrt fyrirtækinu en það ár tók hann við keflinu af föður sínum, André, sem raunar enn í dag hefur vökult auga með starfseminni. Michel stendur nú á sextugu en faðir hans er 92 ára.

Á þrítugs- og fertugsaldri

Systkinin, sem heita Charline, Hugo og Antoine, eru á aldrinum 24 til 31 árs. Þau eru áttunda kynslóð fjölskyldunnar sem fyrst kom til Frakklands árið 1808, meðan á valdaskeiði Napóleons I. stóð. Kynslóðaskiptin markast m.a. af nýju kampavíni úr smiðju Drappiers og hef ég nú fengið tækifæri til að bragða á tveimur tegundum þess. Annars vegar er það Pere Pinot sem þau hafa sett á markað í minningu langafa síns sem var mikill talsmaður Pinot-þrúgnanna. Er vínið blandað í jöfnum hlutföllum af Pinot Noir, Pinot Blanc, Pinot Gris og Pinot Meunier (nánar verður fjallað um þetta vín síðar). Allt vínið á uppruna sinn á ekrum fjölskyldunnar í Urville.

Nafn með sögulegar vísanir

Hins vegar er það vín sem nefnt er Clarevallis. Það er líkt og flest vínin frá Drappier að stærstum hluta Pinot Noir (75%), Pinot Meunier (10%), Chardonnay (10%) og Pinot Blanc (5%). Það er ósíað og með litlu viðbættu súlfíti. Það kann að skýra betur en annað að litur vínsins er nokkuð óvenjulegur. Góður glans en gráleitir tónar í annars gylltum vökvanum vekja sannarlega eftirtekt, ekki síst ef vínið er drukkið í smakki við hlið annars kampavíns. 

Þá er viðbættur sykur í víninu aðeins 4 g/l og telst því Extra Brut. Vínið er nefnt í höfuðið á klaustri sem heilagur Bernharður frá Clairvaux stofnaði árið 1115. Kjallarar þeir sem tilheyrðu klaustrinu hafa verið í eigu Drappier-fjölskyldunnar frá því upp úr miðri síðustu öld. Flöskumiðinn á víninu er hönnun Charline og vísar með ákveðnum hætti í skreytingar þær sem finna má í Clairvaux-biblíunni sem rituð var á 12. öld. Clarevallis-vínið sem systkinin eiga heiðurinn af kemur skemmtilega á óvart með ferskri sýru en augljósum einkennum kalksteinsjarðvegarins sem ekrur fjölskyldunnar standa á.

Gott jafnvægi

Í víninu takast á bitrir tónar í bland við sýru þar sem hin létta sykrun tryggir gott jafnvægi. Bubblurnar í víninu eru afar fíngerðar og undirstrikar það nákvæmnina sem lögð er í víngerðina. Oftast nær eru bubblurnar smærri og kröftugri eftir því sem vínið er látið þroskast í meiri kulda.

Lífrænt vottað

Það er enn til að undirstrika kynslóðaskiptin sem Drappier-fjölskyldan boðar nú að vínið er hið fyrsta frá húsinu sem hlýtur formlega lífræna vottun. Er það í takti við það sem almennt má sjá í Champagne þar sem ræktendur og framleiðendur leita sífellt fleiri lausna við að tryggja lífræna ræktun sem er laus við skordýraeitur og annað það sem er hinu náttúrulega ferli skaðlegt.

Það gefur góð fyrirheit um það sem koma skal hjá þessu frábæra húsi sem hefur um allnokkurt skeið verið aðgengilegt íslenskum neytendum fyrir tilstuðlan Arnars Sigurðssonar hjá Santé! Sú viðkynning hefur m.a. stuðlað að aukinni þekkingu fólks á gæðavínum sem ekki hafa að geyma viðbættan sykur (zero dosage) eða afar takmarkaðan.

Friðgeir stendur vaktina og einnig Kröst

Því miður er aðgengi að Clarevallis ekki mikið en það er þó hægt að nálgast á tveimur veitingahúsum svo ég viti í borginni. Það er hjá Friðgeiri Inga á Eiriksson Brasserie á Laugavegi 77. Staðurinn þar státar raunar af fínum lista kampavíns á sanngjörnu verði (sem er fátítt og alltof algengt að veitingamenn telji það lýsa metnaði að verðleggja allt kampavín út af markaðnum). Þá er það einnig fáanlegt á Kröst á Hlemmi en þar er góður listi af vönduðu kampavíni í boði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert