Bestu beikonpönnukökur í heimi

Slengið þessum pönnukökum strax á borðið.
Slengið þessum pönnukökum strax á borðið. mbl.is/Thecookierookie.com

Er hægt að biðja um eitthvað meira en beikonpönnukökur í morgunmat? Við sem elskum pönnukökur og beikon getum ekki látið þetta kombó fram hjá okkur fara. Hér má líka dekra aðeins við sig og bera pönnukökurnar fram með ferskum berjum, banana, sírópi eða því sem hugurinn girnist.

Bestu beikonpönnukökurnar

  • 450 g beikon, steikt og skorið í litla bita
  • 6 stór egg, skiljið hvítuna frá rauðunni
  • 4 bollar hveiti
  • 4 tsk. lyftiduft
  • ¾ bolli sykur
  • 1 tsk. kosher-salt
  • 3 bollar mjólk
  • ¾ tsk. vanilludropar
  • ¾ bolli bráðið smjör
  • 2 msk. smjör (til að elda upp úr)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 100°.
  2. Skerið beikon eða klippið í litla bita og steikið á pönnu. Leggið beikonið á eldhúspappír og leyfið fitunni að leka af. Til fróðleiks má geta að það má steikja beikon allt að fjórum dögum áður en það er borið fram.
  3. Takið fram stóra skál og blandið saman hveiti, lyftidufti, sykri og salti og setjið til hliðar.
  4. Takið fram hrærivélarskál og hrærið eggjahvíturnar þar til þær verða loftkenndar og setjið í aðra skál og leggið til hliðar.
  5. Setjið þá rauðurnar í hrærivélarskálina, mjólk, bráðið smjör og vanilludropa. Hrærið á fullum krafti í 2 mínútur.
  6. Setjið þá hveitiblönduna út í eggjarauðublönduna og blandið vel saman. Bætið þá helmingnum af eggjahvítunum út í og hrærið í – setjið svo restina af eggjahvítunum út í.
  7. Setjið smjör á pönnu og hitið vel. Hellið deiginu á pönnuna – hér ættu 4 pönnukökur að komast fyrir.
  8. Dreifið beikonkurli yfir deigið á pönnunni. Þegar litlar loftbólur myndast í deiginu er tími til að snúa þeim við og steikja áfram á þeirri hlið.
  9. Bætið við smjöri á pönnuna eftir þörfum þar til búið er að steikja allar pönnukökurnar.
  10. Berið fram með sírópi eða berjum og njótið vel.
mbl.is/Thecookierookie.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert