Rækju „Scampi“ eins og á Cheesecake Factory

Ef þetta er ekki fullkominn helgarmatur þá veit ég ekki …
Ef þetta er ekki fullkominn helgarmatur þá veit ég ekki hvað. mbl.is/Linda Ben

Rækjur eru sívinsælar og Matarvefnum barst beiðni frá dyggum lesanda hvort ekki væri hægt að birta góða rækjuuppskrift. Við fórum á stúfana og það er engin önnur en Linda Ben sem á þessa uppskrift sem við erum handvissar um að á eftir að gera allt vitlaust.

Hér er hún búin að fullkomna réttinn sem hún elskar en það er rækjuréttur af Cheesecake Factory. Við þökkum kærlega fyrir okkur og hugsum okkur gott til glóðarinnar.

Rækju „Scampi“ eins og á Cheesecake Factory

  • 1 pakki frosnar risarækjur ca. 12 stk
  • 200 g heilhveiti spagettí
  • ½ tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1½ dl góður brauðraspur
  • 3 msk Parmesan ostur
  • Svartur pipar
  • Cayenne pipar
  • 3 msk ólífu olía
  • 2-3 dl hvítvín 4-5 hvítlauksgeirar
  • 250 ml rjómi
  • ½ rauðlaukur
  • ca. 18 kirsuberja tómatar (eða aðrir smágerðir tómatar)
  • Búnt af fersku basil

Aðferð:

  1. Byrjið á því að velta rækjunum upp úr salti og matarsóda, látið standa rétt á meðan þið gerið skref 2.
  2. Sjóðið spagettíið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
  3. Blandið saman brauðrasp og parmesan osti í skál, bætið við pipar og örlítið af cayenne pipar, veltið rækjunum upp úr blöndunni svo þær eru allar vel þaktar.
  4. Steikið rækjurnar á pönnu með ólífu olíu þangað til þær eru allar bleikar í gegn.
  5. Fjarlægið rækjurnar upp úr pottinum og setjið til hliðar.
  6. Náið endilega í raspinn sem dettur af rækjunum upp úr pottinum, það er æðislegt að toppa réttinn með því þegar hann er tilbúinn. Hellið hvítvíninu út á pottinn, brjótið hvítlauksgeirana og bætið þeim út á.
  7. Sjóðið á vægum hita í ca 3-5 mín og bætið svo rjómanum út á.
  8. Skerið rauðlaukinn smátt niður og bætið honum út í sósuna ásamt fersku basil og tómötunum.
  9. Smakkið til með salti, pipar og jafnvel örlítið af grænmetisteningi ef ykkur finnst vanta.

Látið sjóða á lágum hita í 5 mín. Setjið spagettíið í fallega skál, bakka eða mót, hellið sósunni yfir og raðið rækjunum á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert