Eldhúsgræjan sem öllu breytir

Það er ekki til í hefðbundnum verslunum enda er það eingöngu selt í heimasölu. Tækið er þýskt og heitir Thermomix TM5 og síðan það kom fyrst á markað árið 2014 hafa yfir þrjár milljónir tækja selst sem gerir móðurfyrirtæki þess, Vorwerk, að fjórða stærsta heimasölufyrirtæki heims. 

Thermomix er sagt hið fullkomna eldhústæki en það sameinar kosti háhraðablandara, hægeldunarpotts, matvinnsluvélar, tölvuvigtar, sous-vide-græju, gufusuðuvélar og snjallsíma. Það gefur því augaleið að það er mikið spunnið í það. Þó er hún lítt þekkt enda ekkert auglýst og bara seld, eins og áður segir, í heimakynningum. Ekki hafa borist fregnir af sölu hennar hér á landi en hún nýtur mikilla vinsælda (eins og sölutölur bera með sér) erlendis þar sem hún þykir ómissandi.

Thermomix kostar um 150 þúsund sem þykir gjöf en ekki gjald en er þá miðað við verðið í Evrópu. Við bíðum að sjálfsögðu spennt eftir komu þess hingað til lands enda sannfærð um að lífið verður langtum betra þegar maður á svona græju.  

Fyrir þá sem vilja kynna sér Thermomix nánar eða jafnvel panta það er heimasíða fyrirtækisins í Bretlandi hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert