Kræsilegur kruðningur sem allir ráða við

Ljósmynd: Sur La Table
Rétt eins og þorri þjóðarinnar elskum við allt sem er eldað í steypujárnspottum og -pönnum. Þessi ferskju- og pekan-gjörningur á meira skylt við botnlausa böku eða nokkurs konar „cobbler“ sem mætti kalla mulning. En einfalt er þetta og bragðgott og mun án efa bræða nokkra bragðlauka. Best er að bera réttinn fram með ís...
Ferskju- og pekan-kruðningur (nýyrði í boði Matarvefjarins) 
Yfirsáldur
  • 60 ml ósaltað smjör, skorið í litla bita (þarf einnig smá auka til að smyrja pönnuna)
  • ½ bolli saxaðar pekanhnetur 
  • ⅓ bolli all-purpose hveiti
  • ⅓ bolli ljós púðursykur
  • ⅓ bolli rúllaðir hafrar
  • ¼ tsk. kanilduft
  • ¼ tsk. fínt sjávarsalt
Fylling:
  • 800-1000 gr. af þroskuðum ferskjum
  • 2 tsk. ferskur sítrónusafi
  • ½ bolli hrásykur
  • 1 kúfuð matskeið Maizena-mjöl
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1/8 tsk. múskat
  • ¼ tsk. kanilduft
  • 1/8 tsk. sjávarsalt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180 gráður. Smyrjið pönnuna ef þess þarf. 
  2. Blandið saman öllum hráefnunum sem á að sáldra yfir fyllinguna (yfirsáldrið). Blandið saman í blandara eða með gaffli þar til blandan er orðin vel mulin og fín og smjörið hefur blandast nokkuð vel saman við. Látið bíða í kæli.
  3. Steinhreinsið ferskjurnar og skerið í 1 sentimetra þykka bita. Setjið í skál og setjið afganginn af fyllingar-innihaldsefnunum saman við. Blandið vel saman. Setjið í pönnuna og sáldrið síðan yfirsáldrinu yfir.
  4. Bakið í 30-35 mínútur en fylgist vel með. Kruðningurinn er bestur þegar hann er orðinn gullinbrúnn og ávextirnir eru farnir að krauma. Ef ykkur finnst yfirborðið vera farið að brenna má setja álpappír yfir rétt á meðan baksturinn klárast.
  5. Takið úr ofninum og látið standa í 10-15 mínútur meðan kruðningurinn kólnar.
  6. Berið fram með ís.
  7. Athugið að það má auðveldlega skipta ferskjunum út fyrir epli. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert