Bailey's-súkkulaðibollakökur

Karamellusósa á toppinn er ákaflega fljótleg og góð hugmynd.
Karamellusósa á toppinn er ákaflega fljótleg og góð hugmynd. mbl.is/Krissý

Kristbjörg Smáradóttir Hansen er göldrótt þegar kemur að bakstri. Krissa eins og hún er kölluð starfar sem sölumaður hjá heildsölunni John Lindsay en hún fær gjarnan hugmyndir að óhefðbundnum samsetningum með vörurnar sem hún selur. Hún bætir hér við gamla góða súkkulaði Royal-búðingnum í hefðbundnar bollakökur og útkoman er virkilega djúsí. Alla vega lá samstarfsfólkið í sæluvímu og kolvetnisþoku eftir unaðslegar kökurnar samkvæmt heimildum Matarvefjarins.

Kökurnar:

2 dl ljós matarolía
4 egg
3 dl súrmjólk
1,5 dl mjólk
4 msk. kakó
300 gr. sykur
1 msk. lyftiduft
1 tsk. salt
300 gr. hveiti
1 pk. Royal-súkkulaðibúðingur (gerir kökurnar bragðmeiri og léttari (flöffí)

Blandið þurrefnunum (þar á meðal  búðingnum) saman í skál. Setjið svo olíu, egg, súrmjólk og mjólk í aðra skál og hrærið vel saman með pískara eða handþeytara. Blandið svo þurrefnunum saman við og hrærið vel.

Uppskriftin dugar í ca. 24 stór bollakökuform. 

Bakist við 180°C í 25 mínútur.

Kremið: 

250 gr. smjörlíki
500 gr. flórsykur
1 dl Bailey's 

Þeytið smjörlíkið, bætið flórsykri smátt og smátt saman við. Blandið svo líkjörnum saman við kremið. Sprautið á kökurnar og toppið með góðri karamellusósu. Ég notaði Gestus-sósu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert