Vinsælasta pítsan í mötuneytinu

Pítsa þarf ekki að vera hrikalega óholl!
Pítsa þarf ekki að vera hrikalega óholl! mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Helga Kristjánsdóttir er matráður hjá heildsölunni Ásbirni Ólafssyni. Hrökkbrauðspítsan hennar Helgu er margrómuð og fyllist alltaf mötuneytið þá daga sem boðið er upp á pítsuna. Við fengum að kíkja á Helgu og lærðum að gera einföldustu pítsu í heimi.

„Við erum öll rosalega hrifin af þessum pítsum og má segja að þetta sé orðinn okkar uppáhaldsréttur í mötuneytinu. Hrökkbrauðsbotninn er betri valkostur en hefðbundinn botn svo við borðum hana með góðri samvisku. Eins er skemmtilegt að hrökkbrauðið er stór hringur og passar því vel sem pítsa (hringurinn fæst m.a. í Fjarðarkaupum og Melabúðinni). Það er líka hægt að búa til litlar sneiðar. Þetta er mjög fljótlegt í matreiðslu, það þarf ekki að bíða eftir að botninn hefist eða bakist, það þarf bara að bræða ostinn. Botninn verður svo dálítið stökkur eins og hann sé eldbakaður,“ segir Ellisif Sigurjónsdóttir, sviðsstjóri markaðssviðs hjá fyrirtækinu.

Ófáir starfsmenn hafa miklar mætur og matarást á Helgu.
Ófáir starfsmenn hafa miklar mætur og matarást á Helgu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þú þarft:
Rjómaost
Pítsasósu
Leksands-hrökkbrauðshring
Álegg

Svona er pizzan búin til:

Blandið saman rjómaosti og pizzasósu og smyrjið á hrökkbrauð. Rjómaosturinn hjálpar til við að mýkja botninn. Setjið vel af rifnum osti yfir. Helga gerði tvær týpur, en í rauninni er allt gott á þessar pizzur og það má í raun bara henda á hana því sem er til í ísskápnum hverju sinni! 

Önnur týpan var:

  • rifinn piparostur
  • steikt beikonkurl
  • salami
  • pepperoni
  • konfekttómatar
  • laukur
  • sveppir

Hin týpan var:

  • rifinn piparostur
  • mozzarella
  • svartar ólífur
  • tómatar
  • laukur
  • sveppir
  • hráskinka
    eftir að búið var að baka pizzuna setti hún meiri hráskinku, ruccola og parmesan-ost.
Girnilegt og gott.
Girnilegt og gott. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Pepperóní- og beikonbomban var ákaflega vinsæl.
Pepperóní- og beikonbomban var ákaflega vinsæl. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert