Rjómalagað kartöflugratín læknisins

Ætli það væri ekki óskynsamlegt að fara aukaferð í ræktina …
Ætli það væri ekki óskynsamlegt að fara aukaferð í ræktina til „að eiga inni á reikningnum“ fyrir þessari dásemd? mbl.is/Ragnar Freyr

Ragnar Freyr matarbloggari græjar rjómalagað kartöflugratín sem hentar vel með helgarsteikinn. 

„Auðvitað eru svo til margar uppskriftir að gratíni. Það má að sjálfsögðu skipta hluta kartaflanna út fyrir blómkál, gulrætur, seljurót, sætar kartöflur, jafnvel hvítkál. Persónulega myndi ég alltaf nota venjulegan rjóma. Ef maður ætlar að borða gratín fer maður alla leið. En ætli það væri ekki óskynsamlegt að fara aukaferð í ræktina til „að eiga inni á reikningnum“ fyrir þessari dásemd.

Einfaldasta og langbesta kartöflugratínið – hlaðið að fullu!“

1,2 kg kartöflur
50 g smjör
750 ml rjómi
2-3 skalottulaukar
3 hvítlauksrif
2-3 msk. hvítlauksolía
nokkrar greinar ferskt timjan
salt og pipar
góður harður ostur (t.d. Óðals-Tindur)

Svo þarf að smyrja formið með mjúku smjöri. Ég kreisti einnig tvö eða þrjú hvítlauksrif og smurði eldfasta mótið með þeim að innan.

Ég skar kartöflurnar með mandólíni þannig að ég fékk sneiðarnar allar jafnþunnar. Svo er bara að raða þeim upp lag fyrir lag. Svo þarf að pensla af og til með hvítlauksolíu (meira er eiginlega alltaf betra).

Af og til er líka ljómandi að setja með smáræði af afar þunnt skornum skalottulauk. Og það er mikilvægt að salta og pipra á milli kartöflulaga.

Svo er það rjómi – nóg af alvöru rjóma. Mér finnst langbest að nota alvörurjóma í gratínið. Ef maður ætlar að gera gratín – þá gerir maður alvöru gratín og nýtur þess.

Næst er að rífa handfylli af ljúffengum osti yfir kartöflurnar og dreifa honum vel.

Hitið ofninn í 180 gráður og bakið gratínið, fyrst undir álpappír til að brenna ekki ostinn, í 45 mínútur. Svo er álpappírinn tekinn af og osturinn látinn brúnast í kortér í viðbót.

Svo er ekkert annað en að bera þessa dásemd fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert