Miðjarðarhafsmataræðið slær í gegn

Gunni hefur starfað við einkaþjálfun og næringarráðgjöf nánast óslitið í …
Gunni hefur starfað við einkaþjálfun og næringarráðgjöf nánast óslitið í 24 ár. mbl.is/úr einkasafni

Gunnar Már Sigfússon er landsþekktur einkaþjálfari og kokkur. Hann hefur skrifað fjölda bóka um mataræði en flestir muna eftir LKL-bókunum hans sem mokseldust hér um árið.

„Ég slysaðist einhvern vegin inn í minn feril með því að fara að kenna eróbikk þegar ég var 17 ára og minnist þess að á þeim tíma var ég með sponsor og það var Pizza 67 sem var minn helsti bakhjarl sem veitti mér fatastyrk með logoi sínu í bak og fyrir og restin af sponsinu var í formi úttektar en í þeim var sem sagt engin tenging á milli mataræðis og hreyfingar. Ég fór síðan í kokkanám sem endaði frekar fljótt þegar ég fattaði að ég þurfti að vinna um helgar (ég var soldið upptekinn einmitt þá) og ég endaði á að fara í 4 ár til Svíþjóðar til vinkonu minnar Jónínu Ben og lærði þar einkaþjálfun með áherslu á næringarhlutann og þar með var framtíð mín ráðin.“ 

Gunni er þó kominn ansi langt frá pizzuátinu og er nú hvað hrifnastur af Miðjarðarhafsmataræði.  „Ég held að okkar helstu næringarmistök síðustu áratugi hafi verði að „banna“ allt sem heitir fita í mataræði okkar Íslendinga. Sem betur fer erum við flest farin og borða rauðuna aftur í eggjunum okkar og smjörið er í stórsókn frá 2012 og fitan ekki lengur eitthvað sem við erum að forðast. Nú tel ég að við þurfum að taka næsta skref og fara að taka hina frábæru ólífuolíu mjög sterkt inn í daglega fituneyslu okkar og fara að nota hana svona eins og „nýja“ lýsið okkar Íslendinga.“


Hvað ertu að bralla þesssa dagana ?
„Ég er búinn að gefa út þrjár bækur frá 2012 og núna var ég að gefa út þriðju rafbókina mína sem fjallar um hið óumdeilanlega súperholla Miðjarðarhafsmataræði. Bókin er stútfull af peppi og góðum hugmyndum og inniheldur líka matseðla fyrir allar máltíðir dagsins í 21 dag. Ég er með konsept sem er þannig að fólk fær senda rafbók í pósthólfið sitt sem það les samdægurs eða á nokkrum dögum og mánudaginn eftir að það kaupir bókina byrjar svo 21 dags prógrammið sem inniheldur daglega pósta alla virka daga sem innihalda fróðleik, pepp, matseðla og æfingaáætlanir og eru hugsaðir eins og þú sért með þinn eigin þjálfara sem sendir þér efni daglega til að halda þér við efnið.“

Það þarf enginn að grenja yfir þessum kvöldmat! Prótein, fita …
Það þarf enginn að grenja yfir þessum kvöldmat! Prótein, fita og gott krydd. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Af hverju er Miðjarðarhafsmataræðið svona gott?
„Miðjarðarhafsmataræðið er það mataræði sem margir læknar eru að mæla með og ástæðan er sú að þessar þjóðir sem búa á þessum svæðum og borða mat sem inniheldur hnetur og fræ, ólífuolíu, mikið grænmeti og salat, baunir og léttari próteingjafa eins og fisk eru með mun lægra hlutfall algengra sjúkdóma eins og hjarta- og kransæðasjúkdóma. Bókin mín Miðjarðarhafmataræðið fræðir fólk um það hvers vegna þetta mataræði er svona gott og setur síðan upp plan varðandi allar máltíðir dagsins. Ég er að vinna með hráefni sem eru notuð á þessum svæðum eins og ólífuoliu, fetaost og gríska jógúrt sem gefa ekki bara gott bragð í allan mat heldur eru næringarlega séð svo frábærlega samsett til að gefa góða orku og mettun að þau eru öll nauðsynleg við að takast að halda okkur orkuríkum og mettum í gegnum daginn.“


Hver eru algengustu mistökin í fæðuvali hjá fólki sem vill léttast?
„Algengustu mistökin eru að mínu mati að fólk sé ekki að velja mat sem vinnur með því í átt að þeim markmiðum sem það hefur sett sér. Segjum sem dæmi að markmiðið sé að léttast. Þá er lykilatriði að vita hver er drifkrafturinn bak við fitusöfnun því þú vilt vera að gera nákvæmlega andstæðuna við það, ekki rétt?

Insúlín er drifkrafturinn bak við fitusöfnun og insúlín er hormón sem brisið framleiðir eingöngu sem mótjafnvægi við því þegar þú borðar eitthvað sem brotnar niður í sykur (glúkósa). Insúlín flytur þennan glúkósa m.a. í fitufrumurnar og er ástæða þess að við fitnum. Ef við skiljum þetta er auðvelt að velja mat sem inniheldur færri heildarkolvetni og glúkósamagnið er í lágmarki. Þetta fjallar ekki um að velja bara eitthvað sem er flokkað sem hollt heldur að skilja líffræðina aðeins betur bak við næringarefnin og það er nákvæmlega það sem Miðjarðarhafsmataræðið fjallar um.“

Hver er þinn uppáhaldsréttur í bókinni?
„Minn uppáhaldsréttur er rétturinn sem er með þessari grein en hann inniheldur öll mín uppáhaldshráefni í matargerð sem eru hvítlaukur, kóríander, kjúklingur og smjör. Ég hef bara einfaldan smekk það er bara þannig. Ég mæli með að með honum sé drukkinn heilsudrykkur Miðjarðarhafslandanna sem er rauðvín og það eru auðvitað andoxunarefnin sem við erum að spá helst í þar. Magnið er hóflegt að sjálfsögðu“ Hér má lesa nánar um bókina og kaupa hana. 

Kóríander, rjómi og hvítvín. Jummí!
Kóríander, rjómi og hvítvín. Jummí! mbl.is/Eggert Jóhannesson


Kóríander- og lime-kjúklingalærapanna

Stjörnurnar hérna eru kóríander, lime og hvítlaukur og það getur einfaldlega ekki klikkað. Ég nota læri í þessa uppskrift en leggir eða heill bútaður kjúklingur hentar álíka vel.

UNDIRBÚNINGSTÍMI:  20 MÍNÚTUR      
HEILDARTÍMI:   60 MÍNÚTUR     
UPPSKRIFT : FYRIR 4
                                       
Í ÞESSA UPPSKRIFT ÞARFTU:
4-6 kjúklingalæri með skinni
ólífuolíu, salt og pipar
6 hvítlauksgeira, saxaða
100 ml hvítvín
250 ml rjóma
safa og börk frá 2 lime
400 ml kjúklingakraft  
3 kjúklingakraftsteninga í heitt vatn
1 búnt af fersku kóríander, grófsaxað
salt og pipar eftir smekk

Svona gerir þú:
 Byrjaðu á að hita ofninn í 180°
 Þerraðu lærin og kryddaðu vel með kryddum að eigin vali, báðar hliðar. Steiktu síðan lærin á vel heitri pönnu í olíu eða smjöri. Settu í eldfast mót og inn í ofn í 50 mínútur.
Notaðu pönnuna áfram án þess að þrífa hana. Settu á hana hvítlaukinn og láttu hann svitna aðeins og helltu síðan á hana hvítvíninu og leyfðu því að sjóða niður. Bættu þá kraftinum við og þegar hann hefur náð suðu bætirðu við lime-safanum og rjómanum.
Þegar kjúklingurinn er klár skaltu hella safanum úr eldfasta mótinu á pönnuna og bættu líka fersku kóríender við og hrærðu það saman við blönduna. Þetta eru síðustu hráefnin svo smakkaðu þig áfram með salti og pipar til að fá það bragð sem þér hentar.
Berðu réttinn fram með soðnu perlu-byggi eða quinoa-kornum og fersku salati.


Gunnar Már og eiginkona hans Sara Reginsdóttir.
Gunnar Már og eiginkona hans Sara Reginsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert