Fyrstu myndirnar af árekstrinum

Ljósmyndirnar tvær. Myndin frá James Webb er til hægri en …
Ljósmyndirnar tvær. Myndin frá James Webb er til hægri en sú frá Hubble er til vinstri. AFP

Sjónaukarnir James Webb og Hubble hafa sent út fyrstu ljósmyndir sínar af því þegar geimfarið DART brotlenti viljandi á smástirninu Dímorfos.

Þetta var í fyrsta sinn sem þessir tveir kraftmiklu sjónaukar fylgdust með sama hlutnum í geimnum.

Þeir beindu sjónum sínum að smástirninu fyrr í þessari viku. Með brotlendingunni vildi bandaríska geimferðastofnunin, NASA, vera betur undirbúin til að verja jörðina í framtíðinni ef smástirni stefndi þangað.

Myndin frá James Webb-sjónaukanum.
Myndin frá James Webb-sjónaukanum. AFP

Ljósmyndirnar frá sjónaukum á jörðu niðri sýndu hvernig stórt rykský myndaðist í kringum Dímorfos og móðurhnött þess Dídýmos eftir áreksturinn. Þær myndir náðu yfir þúsunda kílómetra svæði en nýju myndirnar frá James Webb og Hubble „ná mun betri nærmyndum“, að sögn Alans Fitzsimmons, geimfara við drottningarháskólann í Belfast, sem tók þátt í verkefninu.

Í samtali við AFP-fréttastofuna bætti hann við að á myndunum sjáist efni fljúga í allar áttir eftir árekstur DART. „Þetta er afar tilkomumikið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert