Nýtt kerfi á við 400 starfsmenn

Davíð Þórisson (t.v.) fékk Matthías Leifsson í lið með sér …
Davíð Þórisson (t.v.) fékk Matthías Leifsson í lið með sér og saman stofnuðu þeir fyrirtækið Leviosa árið 2019. Davíð hafði þá gengið með hugmyndina að nýju sjúkraskrárkerfi í maganum frá því að hann kom úr sérnámi í Svíþjóð árið 2013. Ljósmynd/Læknablaðið/GAG

Mörg dæmi eru um að sjúklingar bíði skaða vegna úr sér gengins sjúkraskrárkerfis. Þetta segir Davíð Þórisson, bráðalæknir og einn stofnenda nýsköpunarfyrirtækisins Leviosa. Hann segir möguleika á eftirfylgni skorta.

Davíð segir að nýtt sjúkraskrárkerfi sem hann hafi hannað geti minnkað skráningarvinnu lækna um helming. Fyrir Landspítala yrði ávinningurinn áþekkur því að bæta 400 starfsmönnum við. Þetta kemur fram í viðtali í Læknablaðinu í dag.

Gamla kerfið orðið úrelt

„Fjölmörg dæmi eru um að sjúklingar hafi orðið fyrir skaða þar sem sjúkraskrárkerfið býður ekki upp á tól til eftirfylgni. Mjög klassískt dæmi er sjúklingur sem greinist með vanvirkan skjaldkirtil, er settur á lyf og veltir því fyrir sér tveimur árum seinna hvort hann eigi ekki að vera í einhverjum blóðprufum,“ segir Davíð og fullyrðir að þar sem kerfið sé úrelt sé eftirfylgnin stundum í höndum sjúklinganna sjálfra.

Hann bendir á að læknir hafi ekki verkfærin í sjúkraskrárkerfinu til að hjálpa sér við utanumhaldið. Hann sé með 1.000 sjúklinga í samlagi sínu og því sé ekki fræðilegur möguleiki fyrir hann að halda utan um allt saman, nema kerfið hjálpi honum. Þess vegna verði sjúklingurinn fyrir skaða. Dæmi séu um sjúklinga sem hafa farið inn á gjörgæslu og fengið ranga meðhöndlun þar sem skráning í sjúkrakerfinu Sögu sé mismunandi á landsvísu.

Davíð segir að með nýju kerfi takist mönnum, séu tölurnar yfirfærðar á starfsemi Landspítalans, að stytta skráningarvinnu niður í 25-35% af vinnudeginum. Það myndi spara sjúkrahúsinu um 900.000 klukkutíma á ári.

„Sé það heimfært á meðallaun heilbrigðisstarfsmanna væri tímasparnaðurinn sambærilegur því að bæta 400 starfsmönnum við starfsemina,“ segir Matthías.

Stjórnendur einn helsti vandinn við innleiðingu nýrra tæknilausna

Þá segir Davíð að það sé ekki hægt að halda áfram á sömu braut og stagbæta 30 ára sjúkrarskrárkerfið sem nú sé í notkun. Kerfið sé úr sér gengið og tími sé kominn á heildarendurskoðun.

Flöskuhálsinn í þeirri ákvörðun sé hins vegar hve ábyrgðin liggi víða. Einnig hafi þeir fundið að stjórnendur hafi hingað til verið einn helsti vandinn við innleiðingar nýrra tæknilausna. Það hafi þó breyst í COVID.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert