Kom íslensku inn í LingQ

Rökkvi Vésteinsson, uppistandari og tungumálanörd að eigin sögn.
Rökkvi Vésteinsson, uppistandari og tungumálanörd að eigin sögn. Ljósmynd/Ernir Eyjólfsson

Rökkvi Vésteinsson, tölvunarfræðingur, leiðsögumaður og uppistandari er maðurinn á bak við ákvörðun tungumálaforritsins LingQ að bæta íslensku við þau tungumál sem hægt er að læra með forritinu.

Rökkvi segist stanslaust heyra Íslendinga kvarta yfir því að innflytjendur kunni ekki íslensku en séu sjálfir ekki tilbúnir að gera neitt til að hjálpa þeim að læra tungumálið. Hann spurði því starfsmann hjá LingQ hvernig hægt væri að koma íslensku í gagnið í forritinu.

„Hann sagði að eina sem þyrfti að gera væri að þýða þessar sextíu örsögur og lesa þær inn í miklum gæðum. Þá fannst mér ég ekki hafa neina afsökun til þess að gera það ekki,“ segir Rökkvi í samtali við mbl.is.

LingQ er frítt en með uppfærðum aðgangi er hægt að …
LingQ er frítt en með uppfærðum aðgangi er hægt að láta forritið þýða fyrir sig greinar. Skjáskot

Mikilvægast að geta haldið uppi samræðum

LingQ er forrit til að læra tungumál sem byggist fyrst og fremst á því að læra í gegnum lestur með því að fara yfir eins mikið efni og hægt er, sem er á sama tíma áhugavert fyrir lesandann. Áherslan er frekar á magn heldur en á gæði.

Rökkvi segir fræðilega tungumálakunnáttu eins og gjarnan er kennd í skólum ekki eins mikils virði og að geta tjáð sig óháð því hvort það sem sagt er sé fullkomlega rétt eða ekki.

„Ef þú getur sagt eitthvað bandvitlaust en það skilst, haldið uppi samræðum, það er miklu mikilvægara heldur en að vita hvað viðtengingarháttur er,“ segir Rökkvi.

Uppistandarinn hvetur rithöfunda og aðra til að nota LingQ og gefa leyfi fyrir höfundaréttarvörnu efni til að gera lærdóminn meira spennandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert