Rússar telji kórónuveiruna vera efnavopn

Spútník V bóluefnið með þeim betri á markaðnum ef marka …
Spútník V bóluefnið með þeim betri á markaðnum ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birtist í vísindaritinu Lancet. AFP

Um það bil tveir af hverjum þremur Rússum trúa því að kórónuveiran hafi verið þróuð og framleidd af mönnum og færri en þriðjungur Rússa eru tilbúnir að láta bólusetja sig. Þetta eru niðurstöður könnunar sem gerð var þar í landi.

Svörin gefa til kynna tortryggni almennings í garð stjórnvalda sem á meðal annars rætur að rekja til ógagnsæis í ákvörðunum stjórnvalda í tengslum við faraldurinn og sífellt hrakandi sambands rússneskra yfirvalda við vestræn ríki.

Samkvæmt gögnum frá Levada-miðstöðinni, sem framkvæmdi könnunina, telja um 64% Rússa að kórónuveiran sem veldur Covid-19 hafi verið þróuð á rannsóknarstofu af mönnum og sé ný tegund efnavopna. Um 23% telja að veiran hafi orðið til í náttúrunni.

Sjá ekki tilganginn með bólusetningu

Könnunin var gerð í febrúar og 1.600 tóku þátt í henni. Af þeim voru aðeins 30% tilbúin til þess að láta bólusetja sig en það hlutfall var 38% í desember síðastliðnum.

37% þeirra sem ekki vilja láta bólusetja sig óttast aukaverkanir og 16% segjast ekki sjá tilgang með því. Fjórðungur vill bíða eftir niðurstöðum klínískra rannsókna áður en hann lætur bólusetja sig.

Bóluefni Rússa, Spútník V, var þróað og framleitt með miklum hraða og var fyrst gefið mönnum í ágúst. Sá stutti tími sem það ferli tók olli áhyggjum af öryggi og áhrifum þess en í febrúar birtist rannsókn í vísindaritinu Lancet þar sem fram kom að virkni þess gegn Covid-19 væri um 90%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert