Sæðisgæði minnka

Meðalsæðismagn karla á Vesturlöndum dróst saman um 59% á tæpum …
Meðalsæðismagn karla á Vesturlöndum dróst saman um 59% á tæpum fjórum áratugum, ef marka má rannsóknir Mt. Sinai-læknadeildarinnar. Ljósmynd/Getty

Sæðisgæði karlmanna heims hafa minnkað á síðustu árum og er rík ástæða til að hafa áhyggjur. Þetta segir Shanna Swan, doktor í æxlun, og höfundur bókar um þetta vandamál. Axios greinir frá.

Í rannsókn læknifræðideildar Mt. Sinai, sem Swan stýrði, árið 2017 kom fram að sæðismagn karla á Vesturlöndum hefði fallið um 59% milli áranna 1973 og 2011. Á sama tíma hefði testósterónmagn karla dregist saman og tíðni eistnakrabbameins og risvandamála aukist. Samanlegt gefur þetta tilefni til að ætla að fjöldi ófrjósamra hafi aukist um nær 1% á ári.

Swan hefur tekið þessar niðurstöður saman í nýútkominni bók, Count Down (Niðurtalningin), en í undirtitli segir að nútímasamfélagið ógni sæðismagni, breyti þróun æxlunarfæra karla og kvenna og stefni framtíð mannkyns í hættu, hvorki meira né minna.

„Ef þú lítur á graf yfir sæðismagn og notar til að spá um framtíðina – sem er þó alltaf hættulegt – þá nær [sæðismagnið] núlli árið 2045,“ segir Swan, en það myndi þýða að meðalmaðurinn framleiddi ekkert nothæft sæði. „Það er áhyggjuefni, svo ekki sé meira sagt,“ segir Swan.

Hér ætti þó að fara með nokkur viðvörunarorð. Að ganga út frá því að þróun, sem fylgir tilteknum ferli, haldi áfram út í hið óendanlega getur gefið galnar niðurstöður eins og dæmin sanna.

Engu að síður er ástæða til að hafa áhyggjur. Í bókinni rekja Swan og samstarfsmenn hennar hvernig fjöldi drengja með óeðlilegan kynfæravöxt hefur aukist á liðnum árum og að stelpur sýni í auknum mæli einkenni kynþroska fyrr.

Hún leiðir líkur að því að umfang efna, sem trufla innkirtlastarfsemi, í samfélagi nútímamannsins sé orsakavaldur. Nefnir hún þar þalat og bísfenól-A (BPA) sem bæði eru notuð í plast. Þá spili aðrir þættir eins og reykingar og aukin offita inn í.

Countdown, bók Shönnu Swan.
Countdown, bók Shönnu Swan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert