Hundar elsti vinur mannsins

Íslenski fjárhundurinn, sem kom hingað til lands með landnámsmönnum. Rannsóknin …
Íslenski fjárhundurinn, sem kom hingað til lands með landnámsmönnum. Rannsóknin sýnir að menn hafa haldið hunda í um 11.000 ár. mbl.is/Rósa Braga

Ný rannsókn á erfðaefni hunda bendir til þess að „besti vinur mannsins“ kunni einnig að vera sá elsti. Niðurstöður hennar sýna að um 11.000 ár eru frá því menn fóru að halda hunda. Staðfestir þetta að hundar voru tamdir fyrr en nokkur önnur skepna svo vitað sé til.

Hundar voru á þeim tíma útbreiddir á norðurhveli jarðar og höfðu þegar greinst í fimm undirtegundir. Þrátt fyrir útbreiðslu evrópskra hundategunda á nýlendutímanum, á 16.-19. öld, má enn finna leifar af hinum fornu tegundum í Ameríku, Asíu, Afríku og Eyjaálfu.

Rannsóknin fyllir í sumar af þeim glopum sem hafa verið í sögu samlífis manns og hunds.

Pontus Skoglund, einn vísindamannanna sem stóð að rannsókninni, er verkefnastjóri hjá rannsóknarstofnun fornra erfðamengja við Crick-stofnunina í London. Í samtali við BBC segir Skoglund: „Hundar eru einstakir og frekar skrítnir ef þú hugsar út í það. Þegar menn voru enn veiðimenn og safnarar þá tömdu þeir villt rándýr. Úlfar eru frekar ógnvekjandi í mörgum heimshlutum.“ „Spurningin er: af hverju gerðu menn það? Hvernig kom það til? Það er í raun það sem við höfum helst áhuga á.“

Einn ættleggur tók yfir

Að einhverju leyti endurspegla mynstur í erfðamengi hunda sömu mynstur í erfðamengi mannsins því menn tóku hundana sína með sér er þeir fluttu. En þó er markverður munur.

Til dæmis voru evrópskir hundar upphaflega fjölbreyttir og virtust eiga uppruna sinn í tveimur mjög ólíkum tegundum, annarri frá Austurlöndum nær en hinni frá Síberíu. En einhvern tímann, hugsanlega við upphaf bronsaldar (um 3.200 f.Kr.), virðist einn leggur hafa breitt úr sér og komið í stað allra annarra tegunda í álfunni. Þetta mynstur á sér enga hliðstæðu meðal mannfólks.

Anders Bergström, doktor við Crick-stofnunina, segir: „Ef við horfum til baka lengra en 4-5.000 ár sjáum við að Evrópa var mjög fjölbreytt þegar kom að hundum. Þótt evrópskir hundar nú á dögum komi í ótal stærðum og gerðum, þá má erfðafræðilega rekja þá til mjög takmarkaðs hluta af þeim tegundum sem voru til.“

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert