„Fórnarlömb eigin velgengni“

Tölvuteikning sem sýnir hvernig Osiris-Rex nálgast Bennu.
Tölvuteikning sem sýnir hvernig Osiris-Rex nálgast Bennu. AFP

Svo virðist sem að geimkönnunarfarinu Osiris-Rex, sem bandaríska geimferðastofnunin (NASA) sendi út í geim árið 2016 til að safna sýnum á smástirni, hafi staðið sig of vel að sögn talsmanna verkefnisins. En sýni úr farinu, sem lenti á Bennu fyrr í þessari viku, eru farin að leka út. 

Osiris-Rex.
Osiris-Rex. AFP

Á myndefni, sem hefur verið sent til jarðar, sést hvernig grjót heldur opnum hlera að geymslurými könnunarfarsins og að hluti af þeim sýnum sem Osiris-Rex hefur safnað sé að streyma út. 

NASA vinnur nú að því að reyna að koma í veg fyrir frekari leka. Talið er að farið hafi náð að safna um það bil 400 gr. af sýnum.

Smástirnið Bennu sem er í um 320 milljón km frá …
Smástirnið Bennu sem er í um 320 milljón km frá jörðu. AFP

Dante Lauretta, sem stýrir verkefninu, segir að umtalsvert magn sé að leka út, að því er segir á vef BBC. Hann tekur einnig fram, að Osiris-Rex hefði í raun ekki getað staðið sig betur. „Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að agnirnar séu að sleppa út þar sem við erum eiginlega fórnarlömb eigin velgegni,“ segir Lauretta. 

„Tíminn skiptir öllu,“ segir Thomas Zurbuchen, aðstoðarforstjóri vísinda hjá NASA. 

Nánar um verkefnið á vef NASA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert