Veiran geti lifað í mánuð í myrkri

Kórónuveiran getur lifað í allt að 28 daga á sumum …
Kórónuveiran getur lifað í allt að 28 daga á sumum yfirborðum í myrkri, samkvæmt ástralskri rannsókn. AFP

Kórónuveiran getur lifað af í allt að 28 daga á ýmsum yfirborðum, til dæmis peningum, símaskjám og á ryðfríu járni, samkvæmt ástralskri rannsókn.

Samkvæmt rannsókn vísindastofnunnar Ástralíu getur SARS-Cov-2-veiran lifað af töluvert lengur en áður var búist við. Tilraunin var gerð í myrkri, en fyrri rannsóknir sýna að útfjólublátt ljós drepur veiruna.

BBC greinir frá málinu.

Enn greinir vísindamenn á um hvort raunveruleg hætta stafi af yfirborðssmiti. Algengasta smitleiðin er þegar fólk hóstar, hnerrar eða talar. Einnig eru vísbendingar um að smit geti borist í gegn um örsmáar agnir sem berast með loftinu.

Fyrri rannsóknir á yfirborðssmitum hafa leitt í ljós að veiran getur lifað af í tvo eða þrjá daga á gleri eða á peningum, og í allt að sex daga á plasti eða ryðfríu stáli.

Þó kemur fram í áströlsku rannsókninni að veiran geti lifað af á bæði plasti og á peningum í allt að 28 daga við stofuhita í myrkri.

Til samanburðar getur hefðbundin flensuveira lifað af við sömu aðstæður í allt að 17 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert