Asperger starfaði með nasistum

Austurríski barnalæknirinn Hans Asperger starfaði með nasistum og var mjög virkur í starfi þeirra við  svo nefnda „líknardrápsáætlun“ sem studdi við hugmyndir þeirra um hreinleika kynþátta. Áætlunin gerði ráð fyrir því að ákveðnir hópar barna væru ekki þess verðugir að lifa. Asperger-heilkennið er nefnt eftir lækninum.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin var við læknaháskólann í Vín af Herwig Czech sem er sérfræðingur í sögu læknisfræðinnar.

Czech kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar í gær en þar kemur fram að Asperger hafi komið sér á framfæri við nasista og hafi verið heiðraður af flokknum fyrir hollustuna með starfstækifæri.

Asperger var sammála kenningunni um hreinleika kynþátta og mælti með þvinguðum ófrjósemisaðgerðum og vann reglulega við áætlunina. Þrátt fyrir að hafa unnið með nasistum þá starfaði hann ekki beint með Nasistaflokknum, segir í Czech.

Þar kemur fram að Asperger hafi mælt með flutningi tveggja stúlkna, tveggja og fimm ára, í Am Spiegelgrund barnadeildina við Steinhof geðsjúkrahúsið í Vín. Þar létust tæplega 800 börn, mörg vegna eitrunar, en þar voru börn notuð í alls konar læknisfræðilegar tilraunir. Stúlkurnar tvær eru meðal þeirra sem þar létust. Opinbera skýringin var að þær hafi dáið úr lungnabólgu.

Asperger var einnig félagi í nefnd sem ákvarðaði örlög um 200 barna á öðru sjúkrahúsi. Þau voru úrskurðuð óhæf til þess að læra og létust síðar. Þetta þykir til marks um að Asperger hafi verið vísvitandi gefið fegraða mynd af sjálfum sér síðar um að hann hafi reynt að bjarga börnum frá því að deyja.

Asperger-heilkennið er tegund af einhverfu en til ársins 1980 hafði ástandið ekki einu sinni fengið nafn þrátt fyrir að upprunaleg skilgreining Hans Aspergers væri gerð árið 1944. 

Upplýsingar um Asperger

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert