Mengunarvörn fannst á ruslahaugum

Mikið plast hefur safnast saman í umhverfinu. Nýtt ensím gæti …
Mikið plast hefur safnast saman í umhverfinu. Nýtt ensím gæti skipt sköpum í baráttunni gegn plastmengun. AFP

„Þetta gæti orðið grunnur að nýjum endurvinnsluaðferðum fyrir plast,“ segir Snædís Huld Björnsdóttir, sameindalíffræðingur og lektor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, við mbl.is. „Plast er svo ódýrt að það hefur ekki alltaf þótt svara kostnaði að vera að endurvinna að miklu leyti, en þessi leið að nota ensím sem kemur úr bakteríu er þá annar möguleiki,“ segir hún.

Greint hefur verið frá því að þróað hefur verið ensím sem étur plast og gæti þetta komið að notum í baráttunni gegn mengun í framtíðinni. Ensímið kemur upphaflega úr bakteríu sem fannst 2016, en á mánudag var birt grein í vísindatímariti þar sem fram kom að tekist hefur að breyta ensíminu með erfðafræðilegum aðferðum.

Ensímið getur brotið niður pólýetýlenterefþalat eða PET. PET-plast var fyrst tekið til notkunar um 1940 og er notað í ílát undir mat og drykki. Efnið er líka mikilvægt hráefni í framleiðslu gerviefna sem notuð eru í fatnað, svo sem flís. Það tekur PET-plast hundruð ára að brotna niður í umhverfinu og í dag er slíkt plast í miklu magni í hafinu og á landi.

Plastúrgangur flýtur fyrir utan strendur Hondúras í september í fyrra.
Plastúrgangur flýtur fyrir utan strendur Hondúras í september í fyrra. AFP

Snædís segir að í þessari grein sem vísað er til er búið taka ákveðið ensím og gera breytingar sem leiddu til þess að það virkaði betur við niðurbrot á PET-plasti. „Ensím eru hvatar að líffræðilegum efnahvörfum og allar lífverur hafa ensím,“ bætir hún við.

Þá segir Snædís mikla möguleika í notkun erfðatækni, ensímtækni og örverufræði í þróun nýrra hreinsunaraðferða. Niðurbrot með ensímum er sértæk aðferð og meiri líkur eru á að slíkar aðferðir séu umhverfisvænni en notkun þeirra aðferða sem beitt hefur verið til þessa.

Úr nágrenni endurvinnslustöðvar

Að sögn Snædísar birtist grein 2016 í Science sem greindi frá að fundist hefði baktería sem getur étið PET-plast. Hún fær orku og kolefni úr plasti og getur nýtt það sem orku- og næringargjafa. Það þótti mjög merkilegt því almennt séð er mjög erfitt að brjóta svona plast niður, það er hægt að gera með efnafræðilegum aðferðum með efnum og háum hita og slíkt.

Spurð um hvaðan þessar bakteríur komi segir hún að það sé vel þekkt að plast sé að hlaðast upp í umhverfinu og mörg plastefni brotni illa niður í náttúrunni. Þegar einhver efni verða allt í einu svona algeng í umhverfinu eru alltaf líkur á því að hægt sé að finna einhverjar bakteríur eða aðrar örverur sem geta ráðið við viðkomandi efni.

„Þegar plastið fer að verða mjög algengt eru miklu meiri líkur á að finna örverur sem geta brotið þetta niður og þessi baktería sem fannst 2016, fannst í sýnum sem tekin voru nálægt endurvinnslustöð,“ segir Snædís.

Vel þekkt hreinsunaraðferð

Snædís segir að „bakteríur geta brotið niður alls konar efni, sem sagt nýtt sér alls konar efni til þess að fá orku. Á meðan við fáum okkar orku úr mat, próteinum, kolvetni og fitum, hafa margar bakteríur hæfileika til þess að geta nýtt sér alls konar önnur efni eins og til dæmis ólífræn efni og jafnvel manngerð efni. Þannig að það er oft hægt að finna sérstök ensím sem þær mynda í sínu næringarnámi til þess að nýta í niðurbroti á einhverjum manngerðum efnum.“

Bakteríur hafa oft verið notaðar til þess að hreinsa upp mengunarefni. Þetta er oft á einhverjum afmörkuðum svæðum og eru bakteríurnar látnar hreinsa upp á viðkomandi svæði sem getur verið til dæmis tjörn eða tankar. Þær hafa verið nýttar til þess að hreinsa upp til dæmis olíu og geislavirkan úrgang, að sögn Snædísar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert