Tankurinn breytist í stjörnuver

Frá undirrituninni sem fór fram í hádeginu.
Frá undirrituninni sem fór fram í hádeginu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlu Norðursins og Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna undirrituðu samning um kaup Reykjavíkurborgar á tveimur hitaveitutönkum við Perluna í dag.

Annar tankurinn er nú þegar nýttur undir íshelli og glæsilega sýningu um jöklana á Íslandi. Hinn verður innréttaður í sumar fyrir stjörnuver sem mun nýta nýjustu tækni til að sýna himingeiminn sem Perla Norðursins mun opna í haust og er vinna við það þegar hafin, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þá segir, að annars vegar hafi verið undirritaður samningur um kaup Reykjavíkurborgar á tönkunum og hins vegar samningur við Perlu Norðursins um leigu á húsnæðinu sem bætist við ört stækkandi sýningarrými fyrirtækisins í Perlunni. 

Í svona stjörnuveri er boðið upp á sýndarheim þar sem …
Í svona stjörnuveri er boðið upp á sýndarheim þar sem áhorfendur sitja inni í hvelfingu og fræðast um stjörnur, reikistjörnur, tunglið og önnur fyrirbæri alheimsins. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Nýja stjörnuverið í hitaveitutankinum er hluti af umfangsmiklum endurbótum á Perlunni sem hefur fengið nýtt hlutverk sem náttúrusafn og miðstöð upplifunar í Reykjavík.

Í svona stjörnuveri er boðið upp á sýndarheim þar sem áhorfendur sitja inni í hvelfingu og fræðast um stjörnur, reikistjörnur, tunglið og önnur fyrirbæri alheimsins. Í stjörnuveri Perlunnar munu sex stafrænir skjávarpar varpa 8K mynd í bestu fáanlegu gæðum á hvelfinguna og hljóðkerfi af fullkomnustu gerð opna gestum nýja sýn á norðurljós og náttúru Íslands.

Áhersla er lögð á hughrif við hönnun stjörnuversins. Gestir þess munu upplifa norðurljósin í forsal áður en þeir ganga inn í sjálft stjörnuverið. Stjörnuver Perlunnar tekur 150 manns í sæti og eru stólar sérstaklega gerðir til að tryggja þægindi gesta,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert